Pence ræddi við fjölmiðlamenn fyrir utan Höfða og voru honum varnarmál ofarlega í huga. Hann segist þakklátur Íslendingum fyrir margt, ekki síst fyrir náið og gott samstarf Bandaríkjanna og Íslands allt frá sjálfstæði þess síðarnefnda árið 1944.
Aukinheldur þakkar hann Íslendingum fyrir að hafa ekki tekið þátt í Belti og braut, innviðauppbyggingarverkefni Kínverja. Pence hvatti Íslendinga jafnframt til að forðast kínverska fjarskiptafyrirtækið Huawei, sem hann sagði þurfa að afhenda kínverskum stjórnvöldum upplýsingar um notendur sína. Það væri ekki í anda þess frjálsa samfélags sem Bandaríkin og Íslendingar vilja vera.
Sjá einnig: Vaktin: Íslandsheimsókn Mike Pence
Pence segist vilja styrkja efnahagslegt- og hernaðarlegt (e. strategic) samband ríkjanna enn frekar, ekki síst til að sporna gegn framgöngu Kína og Rússlands á norðurhveli. Ísland hefði í því ljósi aldrei verið mikilvægara með tilliti til varnarmála. Aðspurður var Mike Pence þó ekki tilbúinn að svara því hvort hann hefði í hyggju að auka veru Bandaríkjahers á Ísland eða hvort það hefðu verið mistök að loka herstöðinni í Keflavík árið 2006.
Þessi mál yrðu rædd á fundi hans og Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra síðar í dag. Hann lagði þó áherslu á hernaðarlegt mikilvægi Íslands og sagði að það væri einarður vilji Bandaríkjanna að tryggja öryggi á norðurslóðum með margvíslegum framlögum - án þess þó að útlista þau nánar.
Sjá einnig:Ísland passi fullkomlega í innviðaverkefni Kínverja
Nú heldur Mike Pence á fund með forsætisráðherra á varnarsvæðinu í Keflavík. Áfram verður fylgst með heimsókn Pence í beinni á Vísi en ávarp hans í heild sinni má sjá að ofan.