Árið 2018 reyndist Árvakri hf. erfitt en fyrirtækið var rekið með 415 milljóna króna halla. Árvakur er útgáfufélag Morgunblaðsins, Mbl.is og útvarpsstöðvarinnar K100. Rekstur fyrirtækisins hefur orðið stöðugt erfiðari undanfarin ár. Tapið árið 2017 var 284 milljónir króna og hafði þá sexfaldast frá árinu á undan þegar tapið nam um 50 milljónum króna.
Morgunblaðið greinir sjálft frá rekstri Árvakurs í blaði dagsins. Þar segir Haraldur Johannessen, framkvæmdastjóri Árvakurs og ritstjóri við hlið Davíðs Oddssonar, að ráðist hafi verið í umfangsmiklar aðgerðir til að hagræða í rekstri félagsins. Ekki kemur þó fram í hverju aðgerðirnar felast en fréttastofa hefur sent Haraldi fyrirspurn þess efnis.
Haraldur segir rekstrarumhverfið fjölmiðla afar erfitt. Samkeppni við Ríkisútvarpið sé sífellt erfiðari en þá hafi neikvæð umræða á vinnumarkaði haft verulega neikvæð áhrif á auglýsingamarkaði. Ákveðið hefur verið að ráðast í hlutafjáraukningu til að treysta fjárhagsstöðu félagsins. Hlutafé Þórsmerkur, eiganda Árvakurs, var aukið um 200 milljónir króna í vetur.
Eignir Árvakurs námu um tveimur milljörðum króna um áramót og var eiginfjárhlutfall rúm 28 prósent. Eyþór Arnalds, borgarfulltrúi Sjálfstæðismanna, á stærstan hlut í Árvakri eða um 20 prósent en nánar má lesa um eignarhaldið hér.
