Þórdís vitnaði til taps íslenska karlalandsliðsins í fótbolta gegn Albaníu í gær en benti á að árangur Íslands sé engu að síður aðdáunarverður. „Albanía er um það bil átta sinnum fjölmennara land en Ísland. Hvernig má það vera að við séum í þeirri stöðu að vera svekkt yfir því að tapa fyrir átta sinnum fjölmennari þjóð?“ sagði Þórdís.
Ástæðan væri ekki sú að Íslendingar séu svona góðir í fótbolta af náttúrunnar hendi heldur sú að á Íslandi sé hugað að hæfileikum hvers og eins. Það sé hlutverk stjórnmálamanna að sjá til þess að þjóðfélagið haldi áfram að vera með þeim hætti.
Þá fagnaði Þórdís boðuðum tekjuskattslækkunum í fjárlagafrumvarpi sem eigi að skila rúmlega 120 þúsund krónum á ári í hækkun ráðstöfunartekna þeirra tekjulægstu að því er fram kom í máli ráðherra. „Við erum ekki bara að lækka skatta heldur líka að stórauka fjárfestingar í innviðum, meðal annars með stórsókn í vegamálum,“ nefndi Þórdís sem dæmi.
Ísland verði í fararbroddi á heimsvísu
Þá vék Þórdís máli sínu að átaki stjórnvalda í orkuskiptum sem meðal annars heyrir undir hennar ráðuneyti. „Þar erum við að taka stór skref til móts við framtíðina og tryggja að við verðum áfram í fararbroddi á heimsvísu þegar kemur að því að nýta vistvæna orku í stað jarðefnaeldsneytis. Það er jákvætt fyrir loftslagsmál heimsins,“ sagði Þórdís.Loks gerði Þórdís traust til Alþingis og stjórnmálamanna að umræðuefni. „Það er auðvitað óviðunandi að Alþingi sé á meðal þeirra stofnana samfélagsins sem almenningur treystir síst. Við þingmenn verðum auðvitað að líta í eigin barm hvað þetta varðar. Við berum sjálf mesta ábyrgð,“ sagði Þórdís.