Málinu sé lokið af hálfu lögreglunnar í Noregi enda hafði það að mati Þorbergs verið blásið upp í íslenskum fjölmiðlum langt umfram tilefni.

Greint frá tilraun til að brjótast inn í flugstjórnarklefann
Það var að morgni 15. ágúst að frétt birtist á vef TV2 í Noregi þess efnis að farþegaþotu Wizz Air hefði verið lent í Stavangri þar sem íslenskur karlmaður á sjötugsaldri hefði gert tilraun til að brjótast inn í flugstjórnarklefann.Flugmenn í vél Wizz air á leið frá Búdapest til Íslands óskuðu eftir því að fá að lenda í Stavangri vegna uppákomu í vélinni.
Töluverður viðbúnaður var á Sola-flugvelli vegna málsins og sagði í frétt TV2 að lögreglu- og slökkviliðsmenn hefðu verið ræstir út til að bregðast við yfirvofandi nauðlendingu.
Vel gekk að lenda vélinni og fóru lögreglumenn um borð til að handtaka manninn. Hann á ekki að hafa sýnt neina mótspyrnu. Norska ríkisútvarpið sagði að maðurinn bæri við minnisleysi vegna lyfjanotkunar.

Töldu um heilsufarsvandamál að ræða
Anne Mette Dale, lögmaður lögreglunnar í Stavangri tjáði Vísi að kvöldi 15. ágúst að íslenska manninum hefði verið sleppt. Hann hefði verið yfirheyrður og sleppt úr haldi þar sem ekki þætti ástæða til þess að halda honum lengur.„Hann hefur samþykkt að koma til okkar á morgun til þess að veita okkur nánari upplýsingar. Okkur vantar frekari upplýsingar frá honum þannig að við ákváðum að hann myndi koma á lögreglustöðina snemma á morgun. Honum er frjálst að fara eftir það,“ segir Mette Dale.
Hún sagði að litið væri á málið sem nokkurs konar heilsufarsvandamál.
„Við teljum að hann hafi ekki ætlað sér að skaða neinn um borð. Þannig lítum við á málið núna en við þurfum samt sem áður að staðfesta nokkra hluti áður en að við lokum málinu,“ sagði Mette Dale.

Ekkert tilefni til aðgerða
Nokkrir íslenskir fjölmiðlar greindu frá því að Íslendingurinn sem um ræddi væri Þorbergur Aðalsteinsson. Þorbergur keppti fyrir hönd Íslands á heimsmeistaramótum og Ólympíuleikum áður en hann tók við þjálfun liðsins árið 1990. Hann stýrði því fram yfir HM 1995 sem fram fór hér á Íslandi.Vísir gerði endurteknar tilraunir til að ná í Þorberg eftir að atvikið kom upp, til að fá útskýringar á því hvað gerst hefði, en án árangurs. Hann segir í færslu sinni á Facebook að umfjöllun um hann í tengslum við málið hafi valdið honum skaða og haft áhrif á hans nánustu.
„ Ég var ekki undir áhrifum áfengis þegar þetta atvik kom upp, enda hef ég ekki snert áfengi frá árinu 2012 í kjölfar heilsubrests, “ segir Þorbergur.
Lögreglan í Noregi hafi lokað málinu. Það hafi verið blásið upp í íslenskum fjölmiðlum að hans mati, langt umfram tilefni.
„ Því miður hef ég þurft að sitja undir ásökunum og sögusögnum frá því að íslenskir fjölmiðlar birtu nafn mitt í tengslum við þetta atvik og hefur það valdið mér bæði skaða og haft slæm áhrif á mína nánustu. Þess vegna er rétt að ég taki fram að lögreglan í Stafangri í Noregi mun ekkert aðhafast frekar í málinu og er því lokið af þeirra hálfu, enda ekkert tilefni til áframhaldandi rannsóknar né aðgerða.“