Fótbolti

FIFA þvertekur fyrir óheiðarleika í kosningu Messi

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Messi hafði betur gegn Cristiano Ronaldo og Virgil van Dijk í kosningunni um besta leikmann heims
Messi hafði betur gegn Cristiano Ronaldo og Virgil van Dijk í kosningunni um besta leikmann heims vísir/getty
Alþjóðaknattspyrnusambandið FIFA sendi í dag frá sér yfirlýsingu þar sem sambandið segir ekkert til í þeim ásökunum að kosningin á besta leikmanni heims hafi farið óheiðarlega fram.

Á mánudagskvöld var Lionel Messi krýndur besti leikmaður heims af FIFA, en á bak við verðlaunin er kosning sem fyrirliðar, þjálfarar og blaðamenn koma að.

Í vikunni hafa nokkrir kjósendur sagt að þeirra atkvæði hafi annað hvort ekki verið talin með eða að þeim hafi verið breytt.

Vegna þessa máls sendi FIFA frá sér tilkynningu í dag.

„FIFA varð fyrir miklum vonbrigðum með að sjá fréttir sem drógu heiðarleika kosninganna í vafa. Þessar fréttir eru ósanngjarnar og misleiðandi,“ sagði í tilkynningunni.

„Kosningin fyrir verðlaunin er undir eftirliti hlutlausrar stofnunnar, í þessu máli PricewaterhouseCoopers í Sviss.“

Í tilkynningunni kom fram að hverju atkvæði þarf að skila inn bæði á tölvutæku formi og skriflega. Skriflegu atkvæðin verða að innihalda undirskrift frá bæði ábyrgðaraðila þess sambands sem kjósandinn kýs fyrir og frá kjósandanum sjálfum.

„Bæði FIFA og hlutlausi eftirlitsaðilinn geta sýnt fram á að öll atkvæðin sem bárust standast þessar reglur. Þar með er enginn vafi á réttmæti úrslitanna.“

Messi vann verðlaun FIFA í fyrsta skipti á mánudag, en þessi verðlaun hafa aðeins verið veitt síðan 2016. Áður var FIFA með í afhendingu Ballon d'Or, en nú er hann veittur sér.


Tengdar fréttir

Messi leikmaður ársins að mati FIFA

Lionel Messi er besti leikmaður heims að mati FIFA, en hann var útnefndur leikmaður ársins á verðlaunahófi alþjóðaknattspyrnusambandsins í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×