Innlent

Vill að ríkið reiði sig meira á gjaldtöku vegna notkunar á samgöngumannvirkjum

Jóhann K. Jóhannsson skrifar
Fjármálaráðherra vill að þeir sem noti samgöngumannvirkin borgi fyrir notkun þeirra.
Fjármálaráðherra vill að þeir sem noti samgöngumannvirkin borgi fyrir notkun þeirra. Vísir/Vilhelm
Fjármálaráðherra vill að ríkið reiði sig meira á gjaldtöku vegna notkunar á samgöngumannvirkjum og á móti yrðu tollar á innflutta bíla lækkaðir og breytingar gerðar á gjaldaumhverfi ökutækja, eldsneytis og umferðar.

Í gær undirrituðu ríkisstjórnin og sex sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu sáttmála um uppbyggingu á samgönguinnviðum og almenningssamgöngum á höfuðborgarsvæðinu til fimmtán ára. Sáttmálin gerir ráð fyrir 120 milljarða framkvæmdum í samgöngumannvirkjum á höfuðborgarsvæðinu á tímabilinu.

Fjármálaráðherra hefur sagt að ekki verði farið í svo metnaðarfullar framkvæmdir nema að veruleg breyting verði gerð á gjaldtöku vegna ökutækja.

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherraVísir/Vilhelm

Breytingar í samgöngum kallar á nýja hugsun

„Það hefur ekki verið tekin nein ákvörðun um að hækka skatta við erum fyrst og fremst að tala um breytingar á gjaldaumhverfi ökutækja, eldsneytis og umferðar,“ segir Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra.

Fjármálaráðherra segir að nefnd sé að hefja störf sem á að endurskoða gjöld vegna eldsneytis og ökutækja. Breytingar hafi þó átt sér stað þegar ríkið gaf eftir þrjá milljarða í virðisaukaskattskerfinu vegna vistvænna ökutækja sem erum um 3500 talsins. Bjarni segir að í dag greiði eigendur rafbíla ekki aðflutningsgjöld, afsláttur er af virðisaukaskatti og eldsneytisgjöld eru engin. Þar af leiðandi er engin þátttaka í uppbyggingu samgöngumannvirkja.

„Þetta kallar á algjörlega nýja hugsun og hluti þeirrar hugsunar, þeirrar hugmyndafræði sem við erum að boða er að við förum í gjöld sem miða við notkun á vegakerfinu,“

Útfærslan liggi þó ekki fyrir og að einhver ár geti jafnvel orðið þar til hún liggi ljós.

Geta gjöld þá, þá eldri gjöld komið til með að lækka í þessu ljósi?

„Já, ég sé fyrir mér að við gerum mikla breytingu á kerfunum yfir tíma samhliða þeim tæknibreytingum sem eru að verða. Að við hættum að tolla svona ríkulega bíla við innflutning til landsins og treystum meira á gjaldtöku vegna notkunar á samgöngumannvirkjunum,“ segir Bjarni.

 

 


Tengdar fréttir

„Útfærslan skiptir öllu máli“

Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, segir að það sé jákvætt að ríkið komi betur til móts við höfuðborgarsvæðið í hinum svokallaða samgöngupakka sem var undirritaður í gær en hann gagnrýnir samráðsleysi og segir útfærsluna skipta öllu máli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×