Nicola Sturgeon, leiðtogi Skoska þjóðarflokksins, kvaðst í dag sammála því að besta leiðin til þess að tryggja að Bretar gangi ekki út úr Evrópusambandinu án samnings sé að samþykkja vantraust á ríkisstjórn Boris Johnson.
Í kjölfarið væri mögulegt að setja saman samsteypustjórn stjórnarandstöðuflokka, jafnvel undir forsæti Jeremys Corbyn, leiðtoga Verkamannaflokksins. Sú stjórn myndi svo tryggja að útgöngu verði frestað og því næst boðað til kosninga.
Jo Swinson, leiðtogi frjálslyndra Demókrata, hefur ekki stutt slíkar hugmyndir en það útilokar ekki að meirihluti náist um Corbyn.
