Innlent

Spá allt að 18 stiga hita

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Það er frekar hlýtt og bjart víða um land þessa dagana.
Það er frekar hlýtt og bjart víða um land þessa dagana. vísir/vilhelm
Veðurstofa Íslands spáir allt að 18 stiga hita vestan lands í dag þegar best lætur. Þá ætti hann að hanga  þurr á Norður- og Vesturlandi en á Austfjörðum og Suðausturlandi verður vætusamt.

Einnig munu einhverjir dropar ná yfir á Suðurlandið að því er segir í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofunnar.

Á morgun bætir svo í vind þegar hann snýst í norðaustan 8-15 m/s en stór hluti höfuðborgarsvæðisins er reyndar í skjóli í þessari vindátt.

„Búast má við skýjuðu veðri norðan- og austanlands og lítilsháttar rigningu, hiti á þeim slóðum innan við 10 stig. Sunnan heiða verður bjart veður og allt að 16 stiga hiti. Að lokum má nefna að útlit er fyrir að veður morgundagsins verði nær óbreytt áfram á laugardaginn,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings.

Veðurhorfur á landinu:

Austlæg átt 5-10 m/s í dag, en 10-15 syðst. Lengst af súld eða rigning austan- og sunnanlands, en bjart á köflum á Vestur- og Norðurlandi. Hiti 10 til 18 stig, hlýjast vestan lands.

Norðaustan 8-15 á morgun. Skýjað og dálítil væta norðan- og austanlands, hiti 5 til 10 stig. Bjartviðri sunnan heiða og hiti að 16 stigum.

Á föstudag og laugardag:

Norðaustan 8-13 m/s. Skýjað og dálítil væta norðan- og austanlands, hiti 5 til 10 stig. Bjartviðri sunnan heiða og hiti að 15 stigum.

Á sunnudag:

Norðaustan 3-8 og víða léttskýjað, en 8-13 með austurströndinni og skýjað. Kólnandi veður.

Á mánudag og þriðjudag:

Hæg breytileg átt, skýjað með köflum og yfirleitt þurrt. Hiti 5 til 10 stig yfir daginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×