Samkomulag milli ríkis og sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu hefur verið í vinnslu í nokkurn tíma. Ekki liggur fyrir opinberlega ennþá hvað felst í samkomulaginu en það mun meðal annars snúa að borgarlínu, hugsanlegum vegtollum og uppbyggingu samgöngumannvirkja. Nú rétt fyrir hádegi hófst fundur í samgönguráðuneytinu þar sem þingmönnum höfuðborgarsvæðisins og nefndarmönnum í umhverfis- og samgöngunefnd verður kynnt efni samkomulagsins. Bergþór Ólason er formaður nefndarinnar.
„Það er nú þannig að það sem vekur kannski mestar áhyggjur í þessum efnum er að þarna sé ríkið skuldbundið um einhverja 50 plús milljarða án þess að hafa haft eitthvað með beinum hætti að segja um þá skuldbindingu,” segir Bergþór. Hann fagni því að loksins fái þingmenn kynningu á málinu en hann telji þó að það hafi átt að fá kynningu í umhverfis- og samgöngunefnd. Sjálfur viti hann lítið en ekkert um eiginlegt efni samningsins umfram það sem fram hefur komið í fjölmiðlum.

Það sé þó ánægjuefni að ráðast eigi í vegaframkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu. „Þær hafa setið á hakanum síðan sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu gerðu samkomulag árið 2012 um að fara í svokallað framkvæmdastopp þar sem að var settur milljarður aukalega í strætó á ári í stað þess að fara í stórframkvæmdir á svæðinu,” segir Bergþór. Hann telji mikilvægt að komast út úr þeim fasa.
„Það blasir við öllum að stofnbrautakerfið innan höfuðborgarsvæðisins er löngu sprungið. Þannig að ég er mjög jákvæður gagnvart uppbyggingunni á höfuðborgarsvæðinu en ég hef miklar efasemdir um það hvernig er haldið á þessu máli í augnablikinu.