Tónskáldið Hildur Guðnadóttir segir að leikstjóri Joker-myndarinnar hafi beðið hana um að þykja vænt um Arthur Fleck, manninn sem verður að hinum brenglaða Jóker, þegar hún samdi tónlistina fyrir myndina. Þemalag Jókersins sem Hildur samdi varð til þess að lykilatriði Jóker-myndarinnar var tekið upp á allt annan hátt en lagt var upp með.
Hildur hefur að undanförnu getið sér gott orð í Hollywood og vann hún til að mynda Emmy-verðlaunin fyrir tónlistina í Chernobyl-þáttunum fyrr á árinu. Þættirnir vöktu mikla athygli og var tónlist Hildar meðal annars þakkað fyrir það.
Nýjasta verkefni Hildar er stórmyndin Joker sem skartar leikaranum Joaquin Phoenix í hlutverki Jókersins, persónu sem margir kannast við úr Batman-kvikmyndum og sögum. Myndin er í leikstjórn Todd Phillips. Hann sendi henni handrit að myndinnni og bað hana sérstaklega um að hafa aðstæður Arthur Fleck, manninn sem umbreytist í Jókerinn í huga.
Það reyndist Hildi auðvelt.
„Hann er að reyna færa heiminum smá gleði en tekst það bara ekki vegna ytri aðstæðna sem hafa áhrif á hann,“segir Hildur í samtali við NPR.„Þetta er sorglegt þannig að mér fannst mikilvægt að gefa honum það að eiga sér aðeins mýkri hlið,“ sagði Hildur.
Leikstjórinn breytti skyndilega um skoðun og spilaði lagið aftur og aftur
Strax eftir að hafa lesið handritið settist hún niður með selló og úr varð Bathroom Dance sem Hildur segir að sé einhvers konar birtingarmynd þeirra tilfinninga sem brutust um í henni eftir að hafa lesið handritið. Athygli vekur að hún samdi það áður en að tökur hófust á myndinni sem telst óvenjulegt, enda er kvikmyndatónlist yfirleitt samin eftir að kvikmyndin er tilbúin.
Í viðtalinu við NPR er einnig rætt við Lawrence Sher, kvikmyndatökustjóra myndarinnar. Hann segir að þetta lag hafi „algjörlega breytt“ því hvernig leikstjórinn ákvað að taka upp lykilatriði í kvikmyndinni. Í atriðinu sem um ræðir má sjá Arthur Fleck umbreytast í Jókerinn. Upphaflega hafi atriðið bara átt að vera eins og hefðbundið atriði í kvikmynd.
Það breyttist hins vegar skyndilega við tökur þegar Philipps ákvað að spila lagið aftur og aftur er atriðið var tekið upp.
„Hann spilaði þetta aftur og aftur yfir hverja töku á meðan karakterinn hans Joaquin er í þessu ógeðslega baðherbergi og hann byrjaði á einhverjum umbreytandi dansi,“ segir Sher.
„Tónlistin undir var svo mikilvæg, ekki bara fyrir hvernig Joaquin lék atriðið heldur einnig fyrir hvernig við tókum það upp, hvernig orkan var á tökustað og líka að gera þetta atriði svo lifandi,“segir Sher.
Ánægð með útkomuna
Sjálf var Hildur mjög ánægð með útkomuna og sagði frammistöðu Joaquin hafa algjörlega rímað við tilfinningarnar sem Hildur fann við að semja lagið.
„Þetta var alveg ótrúlega falleg samræða án orða“.
Hlusta má á viðtal NPR við Hildi hér fyrir neðan.