Sjá einnig: Eigendur Domino's hyggjast yfirgefa Ísland
Greint var frá því í dag að Domino's Pizza Group hefði í hyggju að selja rekstur sinn á erlendum mörkuðum, m.a. á Íslandi. Félagið rekur veitingastaði undir vörumerkjum Domino's á Bretlandi og Írlandi og í Sviss, Liechtenstein, Noregi og Svíþjóð, auk Íslands. Reksturinn í Noregi hefur verið sérlega þungur síðustu misseri og þá seldi félagið alla veitingastaði sína í Danmörku fyrr á þessu ári.
Nina Arnott upplýsingafulltrúi Domino's Pizza Group segir í svari við fyrirspurn fréttastofu að salan sé á frumstigi. Enn sé of snemmt að segja til um það hvenær nýir eigendur taki við vörumerki og veitingastöðum Domino's á umræddum mörkuðum. Salan muni ekki hafa áhrif á daglegan rekstur veitingastaðanna, allt gangi áfram sinn vanagang. Ekki fékkst svar við því hvort viðræður væru hafnar við vænlega kaupendur.

Í árshlutauppgjöri Domino's Pizza Group var minnst á að einum veitingastað félagsins á Íslandi hefði verið lokað á þriðja ársfjórðungi. Birgir Örn segir að veitingastað Domino's á Höfðabakka hafi vissulega verið lokað í ágúst síðastliðnum en það eigi sér einfaldar skýringar. Nýir eigendur húsnæðisins hafi viljað notað það sjálfir. Leit stendur nú yfir að nýju húsnæði undir Domino's í hverfinu.
Domino's Pizza Group keypti 51 prósent í Pizza-Pizza, sérleyfishafa Domino‘s á Íslandi, árið 2016. Í árslok 2017 keypti félagið 44,3 prósenta hlut til viðbótar og átti þá 95,3 prósent hlut í fyrirtækinu. Eftirstandandi hlutur, 4,7 prósent, var þá í eigu áðurnefnds Birgis Arnar og Steinars Braga Sigurðssona, lykilstjórnenda Domino's á Íslandi, en þeir seldu hlut sinn í ágúst síðastliðnum.