Leiðtogar DUP, flokks írskra sambandssinna á breska þinginu, lýstu því yfir í morgun að þeir geti ekki sætt sig við þann útgöngusamning Bretlands og ESB, eins og hann líti út núna.
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, þarf að fá breska þingið til að samþykkja samninginn fyrir laugardag, ellegar má gera ráð fyrir að hann muni fara fram á frekari frestun útgöngu.
DUP ver stjórn Johnsons falli og þarf hann því að reiða sig á þingmenn flokksins við að ná samningi í gegn.
Johnson heldur til Brussel í dag vegna leiðtogafundar sambandsins og má búast við að Brexit og samningaviðræður Breta og Evrópusambandsins verði allt um lykjandi.
Ýmislegt bendir til að samningur sé í burðarliðnum, en helsti ásteytingarsteinninn er enn sem fyrr málefni Norður-Írlands og staða svæðisins eftir Brexit. Breska ríkisútvarpið hefur eftir heimildum að nú sé komin lausn á þau mál, sem Evrópusambandið fyrir sitt leyti sætti sig við.
Enn á ný komið að ögurstund í Brexit-málum

Tengdar fréttir

Stutt á milli samningsaðila í Brussel en Brexit-samningurinn næst ekki í kvöld
Samninganefndir Bretlands annars vegar og Evrópusambandsins hins vegar munu ekki ná saman í kvöld en vonast hafði verið til þess að hægt yrði að semja fyrir fund leiðtogaráðs Evrópusambandsins á morgun fimmtudag.

Tíminn senn á þrotum fyrir Johnson
Leiðtogaráð Evrópusambandsins fundar í Brussel á morgun. Þetta er síðasti fundur leiðtogaráðsins fyrir settan útgöngudag Bretlands úr sambandinu en vonast er til þess að í kvöld liggi fyrir hvort nýr útgöngusamningur náist.