Yfirvöld í Japan meta enn eyðilegginguna sem urðu af völdum fellibylsins Hagibis sem gekk yfir Japan um helgina. Björgunarsveitir leita enn á svæðum sem urðu verst úti að eftirlifendum hamfaranna. Að minnsta kosti fimmtíu og sex létust og á annan tug er enn saknað.

Einkennilegt að sjá Tókýó nær mannlausa
Íslensk kona, búsett í Tókýó segir storminn hafa haft gífurleg áhrif í borginn þrátt fyrir að fellibylurinn hafi ekki gengið þar yfir.„Það sem að var hvað helst einkennilegt var það borgin var bara lokuð, hún var bara í „lock down“ eiginlega. Það er eitthvað sem gerist bara aldrei í Tókýó,“ Asra Rán Björt Zawarty Samper, sem stundar nám þar í borg.
Shinzo Abe, forsætisráðherra landsins fyrirskipaði í dag að eitt þúsund liðsmenn úr varaliði hersins mundi taka þátt í björgunarstörfum með öðrum þrjátíu þúsund hermönnum og björgunarmönnum. Tugþúsundir Japana halda til í neyðarskýlum.

Hús tættust í sundur í veðurofsanum
Víða í kringum höfuðborg landsins fór illa. Hús hreinlega tættust í sundur eða hrundu og bílar tókust á loft. Vindhraðinn náði að minnsta kosti 60 metrum á sekúndu á tímabili. 176 ár flutu yfir bakka sína, einkum í mið- og austurhluta landsins.„Það voru hús sem voru rifin og þak fór af sumum og bílar á hvolfi og allt á floti. Það var ein á, sem er bara rétt hjá þar sem ég bý, sem að fylltist,“ segir Asra.
Asra segist hafa fundið vel fyrir veðrinu í borginni.
„Húsið hristist og ég var kannski bara aðallega hrædd um það að gluggarnir myndu brotna eða eitthvað svoleiðis en aðalega var þetta rosalega þung rigning,“ segir Asra.
Þrátt fyrir að björgunarstarf sé enn í fullum gangi í nágrannahéruðum Tókýó er borgin að komast í samt horf. „Tókýó er þegar búin að ná sér. það er allt bara komið í eðlilegt ástand hér. Í héruðum í kringum Tókýó býst ég við að þetta taki aðeins lengri tíma,“ segir Asra.