Sjá nánar: Hollywood-stjörnur setja Húsavík á annan endann
Það stendur mikið til á Húsavík þessa dagana en um tvö hundruð og fimmtíu manns, sem með einum og öðrum hætti koma að gerð kvikmyndarinnar, halda nú til Húsavíkur og þá má sjá leikara á heimsmælikvarða, á borð við sjálfan Will Ferrell og Pierce Brosnan, á rölti í bænum.
„Við erum hérna með góða gesti, kvikmyndagerðafólk frá Netflix. við erum auðvitað bara bæði stolt og ánægð með það að bærinn okkar er að laða jafn stórt verkefni og raun ber vitni hingað til okkar. Það auðvitað stendur mikið til hvað það varðar að margir íbúar hafa ýmiss konar hlutverk á meðan þessum tökum stendur, aukaleikarar og svo eru auðvitað bara alls konar viðvik sem þarf að sinna hérna á meðan þessum tökum stendur. Það er bæði spenna og skemmtilegheit.“
Hvaða þýðingu hefur verkefni af þessari stærðargráðu fyrir Húsvíkinga?
„Ég held að það eigi bara eftir að koma í ljós. Við metum það þannig að ef þessi kvikmynd gengur vel þá fær Húsavík mjög góða kynningu örygglega, viðað við það að bærinn er að hluta til sögusvið kvikmyndarinnar. Við erum bara spennt að sjá hvernig þetta kemur út og svo er það bara verkefni í framhaldinu að taka á móti gestum sem kannski hingað vilja koma og skoða aðstæður hjá okkur.“
Kristján segir að Kvikmyndin sé atvinnuskapandi fyrir bæjarbúa. Hann skellihló þegar hann var spurður hvort honum sjálfum hefði verið boðið hlutverk.
„Nei, það er nú ekki búið að bjóða mér hlutverk.“
Er það ákveðinn áfellisdómur?
„Ég skal ekki segja um það. Ég hef svo sem ekkert verið að trana mér sérstaklega fram. Ég bara ætla að leyfa öðrum að standa í sviðsljósinu og vonandi birtast húsvískar stjörnur á hvíta tjaldinu, sem ganga um þessar götur alla daga,“ segir Kristján Þór Magnússon, sveitarstjóri Norðurþings.
Þrátt fyrir að mikil spenna sé í loftinu vill Kristján minna bæjarbúa á að sýna tillitssemi. Það sé ekki vel séð að taka ljósmyndir af leikaraliðinu og þá sé drónaflug óheimilt á svæðinu.