Lífið

Grætti eiginkonu sína með grönnum líkamanum

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Leikarinn Simon Pegg lagði mikið á sig fyrir hlutverk sitt í hasarmyndinni Inheritance.
Leikarinn Simon Pegg lagði mikið á sig fyrir hlutverk sitt í hasarmyndinni Inheritance. Skjáskot/Instagram
Breski leikarinn Simon Pegg greindi frá því í gær að hann hefði grætt eiginkonu sína, Maureen McCann, með því að grennast gífurlega vegna kvikmyndar sem hann lék í fyrr á þessu ári.

Pegg, sem er 49 ára, umbreytti líkama sínum á stuttum tíma fyrir hlutverk sitt í hasarmyndinni Inheritance. Ljósmynd sem Nick Lower, einkaþjálfari Peggs, birti af leikaranum á Instagram í mars vakti töluverða athygli en þar sést árangurinn bersýnilega. Pegg léttist enda um tæp tíu kíló og kom líkamsfitunni niður í átta prósent.

Pegg var inntur eftir viðbrögðum McCann við umbreytingunni þar sem hann sat fyrir svörum á Comic con-ráðstefnu í London í gær. Þar viðurkenndi hann að hún hefði ekki verið ýkja hrifin.

„Ég varð að verða mjög, mjög grannur vegna verkefnis sem ég vann á þessu ári og konan mín grét yfir því vegna þess að ég varð ekkert nema skinn og bein, þannig að hún var ekki ánægð með það.“

Pegg og McCann hafa verið gift í fjórtán ár. Hann ítrekaði það jafnframt á ráðstefnunni í gær að hann legði það ekki í vana sinn að tileinka sér svokallað „method acting“, leiklistaraðferð þar sem leikarar innlima hlutverk inn í líf sitt – aðferð sem leikarar á borð við Joaquin Phoenix og Christian Bale eru þekktir fyrir að beita. Við tökur á Inheritance hafi líklega orðið breyting þar á en McCann héldi honum þó ævinlega niðri á jörðinni.

„Hún kemur í veg fyrir að ég verði skeytingarlaus leikarahálfviti,“ sagði Pegg.

Pegg er líklega þekktastur fyrir hlutverk sitt í kvikmyndinni Shaun of the Dead. Þá fer hann um þessar mundir með hlutverk í kvikmyndabálkunum Star Trek og Mission Impossible.


Tengdar fréttir

Ekkert er Cruise ómögulegt

Tom Cruise steig fyrst fram sem ofurnjósnarinn Ethan Hunt í Mission: Impossible 1996. Myndin sló í gegn og á rúmum tveinur áratugum eru MI-myndirnar orðnar sex. Sú nýjasta er almennt talin best. Jafnvel ein besta spennumynd síðari tíma.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×