Erlent

Norskur fyrr­verandi þing­maður í sjö mánaða fangelsi vegna falskra ferða­reikninga

Atli Ísleifsson skrifar
Mazyar Keshvari tók sæti á norska þinginu árið 2013.
Mazyar Keshvari tók sæti á norska þinginu árið 2013. Mynd/FRP
Dómstóll í Noregi dæmdi í dag fyrrverandi þingmann á norska þinginu í sjö mánaða fangelsi fyrir gróf fjársvik og fyrir að hafa skilað inn fölskum ferðareikningum til skrifstofu þingsins á þeim tíma er hann gegndi þingmennsku.

Hinn 38 ára Mazyar Keshvari tók sæti á norska þinginu fyrir Framfaraflokkinn árið 2013. Aftonposten greindi frá því á síðasta ári að Keshvari hafi skilað inn fölskum ferðareikningum. Gat blaðið sýnt fram á að þingmaðurinn hafi í raun aldrei farið í umræddar ferðir.

Keshvari játaði síðar að hafa skilað inn fölskum ferðareikningum að andvirði 450 þúsund norskra króna, um sex milljónir íslenskra króna. Hann hefur nú endurgreitt fjárhæðirnar. Dómarinn sagði að það væri metið til refsiþyngingar að brotin hafi átt sér stað yfir lengra tímabil.

Handtekinn vegna rússneskrar rúllettu

Keshvari tilkynnti fyrr í mánuðinum að hann hafi skráð sig úr Framfaraflokknum. Bað hann fjölskyldu sína, samstarfsmenn og þingið afsökunar á gjörðum sínum. Saksóknarar höfðu farið fram á átján mánaða fangelsi.

Fyrr í ár greindu norskir fjölmiðlar frá því að Keshvari hafi verið handtekinn vegna ógnunartilburða í febrúar. Hafði hann verið tilkynntur til lögreglu af manni sem sakaði þingmanninn um að hafa ógnað sér með skotvopni. Var þingmaðurinn sagður hafa framkvæmt einhverja tegund af „rússneskri rúllettu“. Hafi hann verið ölvaður þegar atvikið átti sér stað og hefur lögregla stuðst við hljóðupptöku sem tekin var upp þegar atvikið átti sér stað við rannsókn málsins. Keshvari neitar sök í því máli.


Tengdar fréttir

Hertar reglur eftir svindl

Hertar reglur hafa verið settar um eftirlit með og endurgreiðslu ferðareikninga norskra þingmanna eftir að blaðið Aftenposten greindi frá því fyrr í haust að þingmaður hefði fengið endurgreiddar ferðir sem ekki voru farnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×