Sjá einnig: Johnson sendi bréf með beiðni um frestun
Bréfið sendi Johnson eftir að breska þingið ákvað að útgöngusamningurinn þurfti að vera samþykktur lið fyrir lið og greiða þyrfti atkvæði um hverja einustu lagasetningu sem væri til grundvallar samningnum. Þar með yrðu verulegar tafir á afgreiðslu samningsins.
Donald Tusk staðfesti á Twitter í gær að Johnson hefði óskað eftir frekari fresti eftir að niðurstaðan varð ljós í þinginu. Samkvæmt breska ríkisútvarpinu undirritaði Johnson þó ekki bréfið en í kjölfar beiðninnar um frest á hann að hafa sent annað bréf, undirritað, þar sem hann sagðist telja að það væri mistök að fresta útgöngu.
Michael Gove, samflokksmaður Johnson í Íhaldsflokknum, sagði í samtali við Sky News að ríkisstjórnin hefði alla burði til þess að yfirgefa Evrópusambandið þann 31. október.
Þegar Tusk greindi frá móttöku bréfsins á Twitter í gær sagði hann næsta skref vera að ræða við aðra ráðamenn Evrópusambandsins og ákveða hvernig ætti að bregðast við beiðni Johnson. Johnson tjáði Tusk að bréfið væri fyrir hönd þingsins alls en ekki einungis frá honum sjálfum.
The extension request has just arrived. I will now start consulting EU leaders on how to react. #Brexit
— Donald Tusk (@eucopresident) October 19, 2019