Tilþrifamikil fundarstjórn Bercow sem þingforseta hefur vakið athygli víða um heim, ekki síst í gegnum mánaðalöng átök á þinginu um útgönguna úr Evrópusambandinu. Bercow hefur ekki hikað við að þagga niður í ódælum þingmönnum og skipað þeim að stunda jóga eða íhugun til að róa sig ef svo ber undir.
Bercow ætlar ekki að sækjast eftir endurkjöri í kosningum sem þingið samþykkti í vikunni að fari fram 12. desember. Þar með lýkur tuttugu og tveggja ára þingferli sem hófst fyrir Íhaldsflokkinn.
Sem þingforseti hefur Bercow ekki verið óumdeildur. Fyrrum félagar hans í Íhaldsflokknum hafa meðal annars deilt hart á túlkanir hans á þingsköpum sem þeir telja að hafi hallað á ríkisstjórnina. Johnson forsætisráðherra lét slíkan ágreining til hliðar í nokkurs konar kveðjuræðu til Bercow þegar þingforsetinn stýrði sínum síðasta fyrirspurnartíma forsætisráðherra í þinginu í gær.
„Þú hefur setið þarna á hásæti þínu, ekki aðeins sem dómari, og úrskurðað af vægðarleysi um fínni atriði þingskapa með þinni einkennandi ygglibrún Tony Montana, herra forseti,“ sagði Johnson um Bercow og vísaði til persónu Al Pacino úr kvikmyndinni „Scarface“.
Uppskar Johnson mikil hlátrarsköll þingheims en gerðist síðan einlægari í lofi sínu á Bercow.
„Þó að við kunnum hafa verið ósammála um sumar lagalegu nýjungarnar sem þá hefur talað fyrir efast ég ekkert um að þú hafi verið góður þjónn þessa þings og neðri deildarinnar,“ sagði forsætisráðherrann.