Lögreglan í Mexíkóborg fann altari, sem að hluta til var gert úr mannabeinum, í athvarfi eiturlyfjahrings. Unnið er að því að komast að því hverjum beinin tilheyra með DNA-rannsóknum.
Nýlega lögðu lögreglan og mexíkóski herinn til atlögu gegn eiturlyfjahring sem hafði aðsetur í Tepito-hverfinu. Meira en hundrað manns tóku þátt í aðgerðinni. Að sögn lögregluyfirvalda Mexíkóborgar fundust 42 höfuðkúpur, 40 kjálkabein og 31 bein úr hand- eða fótleggjum. Einnig fannst mannsfóstur í krukku í húsinu. 31 var handtekinn í aðgerðunum en dómari hefur þegar úrskurðað að 27 skuli sleppt.
Altarið er talið minna mikið á ýmislegt sem tengist vúdúsið. Hann á upptök sín í Afríku en barst yfir Atlantshafið og er iðkaður á Karíbahafseyjum og á meginlandi Ameríku. Á myndum frá staðnum mátti sjá krossa, hnífa, grímur, og mynd af hyrndri geit sem oft hefur verið túlkuð sem holdgervingur kölska.
Á þessu stigi er málið ekki rannsakað sem morð því að þeir sem byggðu altarið hefðu getað komist yfir beinin á annan hátt. Ekki er þó útilokað að um manndráp sé að ræða, því ofbeldi tengt eiturlyfjastríðinu hefur verið geigvænlegt og líkamsleifar fólks oft vanvirtar.
