Innlent

Vinnur við að rannsaka eigið líf

Sighvatur Arnmundsson skrifar
Dovelyn segir að bakgrunnur sinn nýtist vel í starfi þar sem mjög fáir sem rannsaki fólksflutninga hafi persónulega reynslu af því.
Dovelyn segir að bakgrunnur sinn nýtist vel í starfi þar sem mjög fáir sem rannsaki fólksflutninga hafi persónulega reynslu af því. Fréttablaðið/Ernir
Dovelyn Rannveig Mendoza starfar sem sérfræðingur á sviði fólksflutninga. Sjálf fluttist hún til Íslands frá Filippseyjum þegar hún var sextán ára eftir langan aðskilnað frá mömmu sinni. Hún þekkir því af eigin raun þann heim sem bíður erlends vinnuafls.

Lífið hefur fært Dovelyn Rannveigu Mendoza frá fátækrahverfum Maníla til Amsterdam með viðkomu á Íslandi og í Bandaríkjunum. Hún starfar sem sérfræðingur á sviði fólksflutninga og hefur því í rauninni atvinnu af því að rannsaka eigið líf. Dovelyn var stödd hérlendis á dögunum þar sem hún tók þátt í pallborðsumræðum um erlent vinnuafl á Íslandi á Þjóðarspeglinum.

Þegar blaðamaður hitti Dovelyn var hún í óðaönn að lesa um nýjustu rannsóknir og fréttir af stöðu erlends vinnuafls á Íslandi, hóps sem hún tilheyrði einu sinni sjálf. Nú starfar hún við ráðgjöf á sviði stefnumótunar um fólksflutninga. Dovelyn var spennt fyrir því að eyða nokkrum dögum ásamt eiginmanni sínum í gamla heimalandinu áður en hún héldi í næstu fundarferð sem að þessu sinni er til Víetnams.

Tengsl Dovelyn við Ísland má rekja til þess að frænka hennar fluttist til Íslands seint á áttunda áratugnum. „Hún giftist Íslendingi en á þessum tíma bjuggu mjög fáir Filippseyingar hér. Með hennar hjálp fluttu margir ættingjar okkar líka til Íslands.“

Svo fór að móðir Dovelyn ákvað að slást í þennan stækkandi hóp Filippseyinga sem freistaði gæfunnar á Íslandi, í tæplega ellefu þúsund kílómetra fjarlægð.

„Mamma kom til mín og sagðist ætla að flytja til Íslands. Ég hafði aldrei heyrt um landið áður. Hún vildi búa okkur betra líf og á Íslandi gat hún aflað meiri peninga.“ Dovelyn og pabbi hennar urðu eftir í Maníla þar sem þau bjuggu í einu af fátækrahverfum borgarinnar. Þegar mamma hennar fór til Íslands voru tvær vikur í níu ára afmæli Dovelyn.

Saknaði mömmu

En hvernig var það fyrir unga stúlku að vera svona fjarri mömmu sinni?

„Það var mjög erfitt. Pabbi ól mig í rauninni upp og við urðum mjög náin. Við mamma fjarlægðumst hins vegar þótt við héldum sambandi í gegnum bréfaskriftir. Ég man að hún breyttist mikið eftir að hún flutti til Íslands. Auðvitað saknaði ég hennar mjög mikið en ég veit það núna að án peninganna sem hún sendi okkur hefði líf okkar í Maníla orðið mjög erfitt.“

Dovelyn fann einnig til öfundar í garð mömmu sinnar, til dæmis þegar hún sá myndir af henni á ferðalögum um Evrópu og í hópi ættingja á Íslandi. „Mér leið eins hún lifði lífi sem ég væri ekki hluti af.“

Peningarnir sem mamma Dovelyn sendi heim til Filippseyja gerðu feðginunum kleift að lifa ágætu lífi í Maníla. Á þessum árum voru börn á Filippseyjum sex ár í grunnskóla og svo tók við fjögurra ára framhaldsskólanám. Þegar Dovelyn var sextán ára og hafði lokið þessu námi hvatti mamma hennar hana til að koma líka til Íslands. Ef hún kæmi hingað áður en hún yrði átján ára gæti hún fengið íslenskan ríkisborgararétt.

Úr varð að Dovelyn flutti til Íslands en hún hafði þá aðeins hitt mömmu sína tvisvar sinnum allan þann tíma sem þær bjuggu hvor í sinni heimsálfunni. Þetta var árið 1995 en Dovelyn fékk svo íslenskan ríkisborgararétt ári síðar og tók upp millinafnið Rannveig.

„Við gengum í gegnum erfiðan tíma þarna strax eftir að við sameinuðumst á ný. Ég þurfti í rauninni að kynnast mömmu upp á nýtt. Það tók sinn tíma en ég get í dag verið þakklát fyrir að við eigum mjög fallegt samband.“

Dovelyn hafði hug á því að halda námi sínu áfram á Íslandi og hélt hún gæti farið í háskóla. Hún komst hins vegar að því að fyrst þyrfti hún að klára íslenskan menntaskóla og í staðinn fékk hún vinnu í niðursuðuverksmiðju Ora.

Góðar minningar frá Ora

Hvernig minnist hún tímans í verksmiðjunni?

„Ég vann þarna í eitt og hálft ár. Um helgar hjálpaði ég svo mömmu við að þrífa heima hjá fólki til að drýgja tekjurnar. Mér leið vel hjá Ora. Ég átti góða vinnufélaga og mér fannst mér alls ekki mismunað að neinu leyti. Sérstaklega minnist ég Kristjáns, yfirmanns míns, sem skutlaði okkur heim ef það var vont veður. Einu sinni man ég eftir því að hafa næstum því eyðilagt eina vélina í verksmiðjunni. Ég var bara sextán ára unglingur og unglingar gera oft heimskulega hluti. Kristján leit á mig og spurði hvað ég væri eiginlega að gera. Mér leið hörmulega og var viss um að hann myndi reka mig. Hann horfði hins vegar á mig með föðurlegum vonbrigðasvip og sagði að ég yrði að passa að þetta gerðist ekki aftur. Að vissu leyti er hann táknmynd fyrir allt það góða fólk sem ég vann með. Svo man ég eftir henni Guðbjörgu sem kenndi mér svo margt um lífið og hvernig ég ætti að vera sterk.“

Dovelyn fékk svo inngöngu í einn af bestu háskólum Filippseyja og hún nýtti tímann á Íslandi til að safna sér peningum fyrir náminu og uppihaldinu. Eftir að hún lauk því námi kom hún aftur til Íslands til að safna sér peningum. Hún fékk vinnu í þvottahúsinu Fönn. „Þar var ég í hálft ár að pressa jakkaföt. Ég var best í því,“ segir hún hlæjandi.

Dovelyn leið vel í vinnunni hjá Fönn og minnist sérstaklega samstarfskonu sinnar Rósu. „Hún var yndisleg eldri kona en okkur kom mjög vel saman. Við unnum vinnuna okkar hratt og vel og höfðum þá tíma til að spjalla. Ég man ekki alveg hvernig við gerðum það því hún talaði enga ensku og ég litla sem enga íslensku. En þetta virkaði einhvern veginn.“

Diplómatadraumur

Eftir hálft ár í þvottahúsinu fór Dovelyn aftur til Filippseyja. Þar kynntist hún fyrri eiginmanni sínum sem er Bandaríkjamaður af filippseyskum uppruna. Þau fluttust árið 1999 saman til Bandaríkjanna þar sem Dovelyn bjó að mestu leyti til 2017. Hún fékk inngöngu í Georgetown-háskóla í Washington DC þaðan sem hún útskrifaðist með meistaragráðu í utanríkisþjónustu. Ástæða námsvalsins var engin tilviljun og á sér skemmtilega sögu.

„Mig langaði alltaf að verða diplómati og Georgetown er besti háskólinn til að undirbúa sig fyrir slíkt. Við mamma unnum meðal annars við þrif á heimili Doris Briem. Hún var 94 ára og hafði átt mjög merkilega ævi en hún var gift Helga P. Briem sem vann lengi hjá íslensku utanríkisþjónustunni. Hún sagði mér sögur af lífshlaupi sínu og sýndi mér myndir. Svo sagði hún mér að ég ætti annaðhvort að giftast diplómata eins og hún hefði gert eða gerast sjálf diplómati. Þannig að vegna þess að ég vann við að þrífa hjá þessari konu á Íslandi ákvað ég að gerast diplómati.“

Sá draumur átti þó ekki eftir að rætast því eftir að Dovelyn lauk náminu í Georgetown fór hún að vinna fyrir hugveitu á sviði fólksflutninga. Hugmyndin var að vinna þar meðan hún biði eftir bandarískum ríkisborgararétti.

„Ég varð hins vegar alveg heilluð af þessari vinnu og þessum málefnum. Þetta var eitthvað sem snerti mig og mína lífsreynslu með áþreifanlegum hætti. Ég fæ borgað fyrir að rannsaka eigin ævi sem er mjög áhugavert. Sjónarhorn mitt er svolítið öðruvísi vegna bakgrunns míns. Það eru fáir að rannsaka þessa hluti sem hafa unnið í verksmiðjum og sem húshjálp. Mér finnst þessi reynsla mín frá Íslandi gefa mér mikla dýpt og innsæi sem ég annars hefði ekki. Ég er enn að vinna að þessum málum öllum þessum árum seinna.“

Hér er fjölskyldan, frá vinstri Selma, Edgar, Hein, Dovelyn, Stefano, Dalila og tveir frændur, þeir Kaspar og Sacha.

Jóga og útivist

Dovelyn kynntist núverandi eiginmanni sínum, Hein de Haas, á ráðstefnu í Genf. Hann er prófessor í félagsfræði við Háskólann í Amsterdam og hefur stundað rannsóknir á sviði fólksflutninga. Hann flutti meðal annars aðalfyrirlesturinn á Þjóðarspeglinum þar sem hann ræddi um erlent starfsfólk á Íslandi í alþjóðlegu samhengi.

Dovelyn flutti til Amsterdam árið 2017 þar sem þau Hein búa nú. Með þeim búa tveir synir Dovelyn af fyrra hjónabandi. Edgar, sem er 19 ára, stundar hagfræðinám við Háskólann í Amsterdam og Stefano, sem er 16 ára, er í menntaskóla. Hein á tvær dætur af fyrra hjónabandi, hina 17 ára gömlu Selmu og 12 ára gömlu Dalilu.

„Við störfum bæði á sviði fólksflutninga, hann í akademíunni en ég við stefnumótun. Við deilum ástríðu og í rauninni gremju yfir því hvernig við getum breytt umræðunni um fólksflutninga og innflytjendur. Hann er líka djasspíanisti og mikill áhugamaður um jóga og útivist. Hann dró mig í jóga og gönguferðir. Ég hefði aldrei trúað því að ég yrði farin að stunda jóga og komin í gönguskó. Snemma í okkar sambandi gengum við til dæmis síðustu 300 kílómetra Jakobsvegarins saman.“

Reynsla Dovelyn af vinnu í verksmiðjum á Íslandi nýtist henni í starfi sínu í dag. Hún starfar bæði með alþjóðlegri stofnun á sviði félagssögu auk þess að veita ríkisstjórnum og alþjóðastofnunum ráðgjöf um stefnumótun á sviði fólksflutninga. „Ég nýtti til dæmis reynslu mína af störfum í verksmiðju á Íslandi þegar ég var í vettvangsskoðun í verksmiðju í Jórdaníu. Ég gat strax fundið á mér að það var eitthvað að þarna í þessari verksmiðju.“

Vel tekið á Íslandi

Að mati Dovelyn var það íslenska samfélag sem tók á móti henni um miðjan tíunda áratuginn að mestu leyti fordómalaust. Henni hafi að jafnaði verið vel tekið þó að það tæki langan tíma að kynnast Íslendingum það vel að þeir byðu henni heim til sín.

„En þegar þeir höfðu boðið þér heim til sín varstu orðinn vinur þeirra. Þetta er það Ísland sem ég þekki. Reynslan var samt ekki öll góð. Ég man að þegar ég kom hingað prófaði ég að vinna á veitingastað. Ég entist í fjóra daga og vann stanslaust allan tímann. Eini tíminn sem ég gat aðeins slakað á var þegar ég þóttist þurfa að fara á klósettið. En ef ég hugsa um tímann hjá Ora og Fönn og samstarfsfólkið og vinina sem ég eignaðist þar þá náðum við einhverri tengingu sem ég hef ekki fundið annars staðar. Ég hef unnið í Washington DC og á mörgum frábærum stöðum en aldrei fundið svona tengingu.“

Dovelyn segir að flutningur vinnuafls milli landa og heimshluta geti skilað miklum ávinningi. „Ég tala af eigin reynslu. Ef mamma hefði ekki komið hingað veit ég ekki hvar ég væri stödd í dag. Við pabbi bjuggum í fátækrahverfi í Maníla og hann var illa haldinn af berklum. Ákvörðun mömmu að flytja til Íslands og fara að vinna í verksmiðju bjargaði okkur frá miklum erfiðleikum. Hún starfaði áður sem kennari á Filippseyjum en fór að vinna hjá Álafossi á Íslandi og seinna í frystihúsi. Ég fékk tækifæri sem ég hefði ekki annars fengið í lífinu. En ég veit það vel, bæði af eigin reynslu og sem fræðimaður á þessu sviði, að þetta er ekki alltaf svona.“

Dovelyn og Hein giftu sig í Hollandi síðasta sumar. Mamma Dovelyn, til vinstri, og Nora, frænka hennar sem býr á Íslandi, eru hér með brúðhjónunum.

Stolt af mömmu

Fjölskylda Dovelyn á Íslandi hefur náð að aðlagast íslensku samfélagi vel sem að mati hennar er lykilatriði þegar kemur að erlendu vinnuafli. „Ég horfi á aðra kynslóð Filippseyinga á Íslandi og þeir eru orðnir Íslendingar að öllu leyti. Þeir tala fullkomna íslensku, stunda háskólanám og gengur vel í samfélaginu.“

Pabbi Dovelyn jafnaði sig af berklunum og flutti til Íslands ári á eftir dóttur sinni. Hann fékk vinnu sem klæðskeri á saumastofu 66°Norður en hann hafði starfað sem slíkur á Filippseyjum. Eftir að hann fór á eftirlaun fluttist hann aftur til Filippseyja þar sem hann lést árið 2015. Móðir Dovelyn býr enn þá hluta ársins á Íslandi.

„Hún er nú hætt að vinna og býr á Íslandi frá maí til desember en hinn hlutann á Filippseyjum. Henni leiddist íslenski veturinn. Ég á enn þá mikið af ættingjum sem búa á Íslandi og raunar búa flestir ættingjar mömmu hérna enn. Mamma hélt að hún gæti flutt aftur heim til Filippseyja. Þegar hún var komin þangað áttaði hún sig á því að ættingjarnir og vinirnir voru á Íslandi. Fyrir hana er Ísland orðið annað heimili. Ég er stolt af henni og öllum þeim fórnum sem hún færði fyrir okkur og ég veit að hún er líka stolt af mér.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×