Lögregla í Noregi greindi frá þessu í morgun. Harald Skjønsfjell hjá norsku rannsóknarlögreglunni segir að upplýsingum á tönnum hafi leitt til þess að staðfest hafi verið að um Torgersen hafi verið að ræða.
Gömul gúmmístígvél með mannsbeinum fundust á einkajörð í Mandal í september síðastliðinn. Við hliðina fannst riffill og aðrir minni munir. Fljótlega eftir að munirnir fundust fór grunur að beinast að því hvort um Torgersen hafi verið að ræða.
Arne Odd Torgersen hvarf frá heimili sínu í Holum í Mandal aðfaranótt 18. janúar 1955. Hann var þá 21 árs gamall, en málið vakti mikla athygli í Noregi á sínum tíma. Í tilkynningu lögreglu frá í apríl 1955 segir að Torgersen hafi verið klæddur háum, brúnum gúmmístigvélum, bláum frakka og gráum hatti þegar hann hvarf.
Anne Margrethe Ruud, lögreglustjóri í Mandal, segir íbúa fegna því að niðurstaða hafi komið í málið. Á sínum tíma hafi farið af stað slúðursögur um að hann hafi staðið fyrir þjófnaði og stungið af með þýfi.
NRK segir frá því að eftir að tilkynnt var um hvarfið hafi mikið verið rætt um tímasetningu þess. Mikið hafi verið um sögusagnir og tengdust þær flestar því að Torgersen átti ásamt félaga sínum að mæta fyrir dómara daginn eftir vegna gruns um að tengjast innbroti í Mandal. Gekk ein kenningin út á að einhver hafi þrýst á Torgersen að skrifa undir plagg þar sem hann sagðist einn hafa borið ábyrgð á umræddu innbroti.
Lögregla segir ekkert liggja fyrir um ástæður þess að Torgersen hafi látið lífið.