Enn hefur ekki verið tilkynnt hvort, eða hvenær, Íslendingar fá aðgang að veitunum. Miðað við hve langan tíma það tók Netflix og Amazon Prime að ná Íslandsströndum gæti enn um sinn orðið einhver bið á komu nýju veitanna. Þó er líklegt að Apple TV+ opni fyrir íslenskum áhorfendum fyrr en síðar en koma Disney strandar sennilega eins og sakir standa á réttindamálum yfir kvikmyndir.

Mest áhersla er lögð á nýjar fjölskyldukvikmyndir, sem og heimildaþáttaraðir og raunveruleikasjónvarp á borð við Encore!, Imagineering Story, Marvel´s Hero Project og The World According to Jeff Goldblum. Flaggskip dagskrár Disney+ er þó fyrsta leikna Star Wars sjónvarpsþáttaröðin, The Mandolorian. Viðbrögð þeirra sem hafa tjáð sig um þáttinn á Internetinu hafa verið í jákvæðari kantinum.

Því má gera ráð fyrir að einhverjir Íslendingar sem hafa áhuga á þessum nýju efnisveitum muni finna leiðir til að sækja þjónustu þeirra, en notkun efnisveita er nú þegar ótrúlega útbreidd hér á landi. Auk Netflix og Amazon Prime streyma Stöð 2 Maraþon og Síminn Premium efni til áskrifenda sinna. Einnig hefur skandivíska efnisveitan Viaplay tilkynnt komu sína á Íslandsmarkað á næsta ári.