Saman eignuðust þau tvíbura árið 2009 og gekk það ekki áfallalaust fyrir sig að verða ólétt.
„Við vorum bara nýbúinn að gifta okkur og langaði okkur að fara eignast börn,“ segir Eva Ruza.
„Maður heldur alltaf að þetta muni bara gerast einn, tveir og bingó. Maður á bara ástarfund og verður síðan bara ólétt af barni í níu mánuði. En þú veist aldrei hvernig gangur lífsins er. Svo byrjum við að reyna eignast barn og ég verð ófrísk. Svo missi ég það fóstur og það var rosalega mikill skellur.“
„Ég hugsaði strax að ég væri sú eina af mínum vinkonum sem hefði upplifað svona og þetta er mikill og erfiður sársauki. Þú ert strax komin níu mánuði fram í tímann þegar þú færð jákvætt þungunapróf. En svolítið eins og ég og Siggi erum þá héldum við bara áfram. Það þýðir ekkert að dvelja í sorginni þegar maður er búin að vinna úr henni. Svo eftir tvö ár verð ég aftur ófrísk og við missum aftur fóstur,“ segir Eva en þau tóku í framhaldinu ákvörðun að fara í skoðun.
„Þar kom í ljós að það var allt í lagi með okkur bæði en það vantaði eitthvað hjá mér sem heldur fóstri. Það er mjög auðvelt að eiga við það en við fórum í svokallaða tæknisæðingu sem er einfaldasta ferlið og það heppnaðist í þriðju tilraun og það voru tvíburarnir okkar.“
Í þættinum ræðir Eva einnig um feril sinn á samfélagsmiðlum, um sjónvarpsþátt sem hún er að byrja með á nýju ári, hversu seinheppin hún getur verið, lífsgleðina sem hefur fleytt henni áfram í lífinu, um áhugan á Hollywood og um erfileika þeirra hjóna að eignast börn.