Veðurviðvaranir eru í gildi um allt land í dag, nema á Vestfjörðum, og er fólk hvatt til að fara að öllu með gát ef ferðast er á milli landshluta og sömuleiðis huga að hlutum sem geta fokið í nærumhverfi sínu. Gert er ráð fyrir því að truflun verði á samgöngum víða um land vegna veðurs.
Strætó hefur gefið út að miklar líkur séu á því að ferðir á landsbyggðinni falli niður vegna veðurs í dag. Truflanir eru á ferðum Strætó leiðum 51, 52 og 57. Strætó hvetur alla farþega til að fylgjast grannt með veðurspá og tilkynningum á Twitter síðu Strætó eða á heimasíðu Strætó.
Öllu innanlandsflugi Air Iceland Connect og Flugfélagsins Ernis hefur verið aflýst í dag.
Tilkynnt hefur verið að Vestmannaeyjaferjan Herjólfur muni sigla til Þorlákshafnar í dag vegna veðurs.
Samkvæmt upplýsingum frá veðurfræðingi Vegagerðarinnar var orðið hvasst á Vesturlandi nú í morgun, hviður 35-40 m/s undir Hafnarfjalli, en verður skárra um tíma undir kvöld. Aftur á að fara að versna um kl. 20. Hviður verða einnig undir Eyjafjöllum og á Kjalarnesi eftir hádegi. Vegfarendur er hvattir til þess að fylgjast með færð og veðri.
Einnig er víða farið að hvessa verulega á Suðvesturlandi. Á Reykjanesbraut frá kl. 15 verður snarpur hliðarvindur og vatnselgur.
Síðast uppfært klukkan 13:30 með frekari upplýsingum frá Strætó og úr innanlandsflugi.
Gert ráð fyrir áframhaldandi samgöngutruflunum

Tengdar fréttir

Fólk hvatt til að fara að öllu með gát og huga að hlutum sem geta fokið
Gular viðvaranir eru í gildi um allt land.