Forseti Frakklands, Emmanuel Macron, hefur boðið til fundar með ráðherrum sem komið hafa að umdeildum áformum breytingar á eftirlaunakerfi landsins. Fyrirhugaðar breytingar hafa ekki fallið vel í kramið í Frakklandi og hófust verkfallsaðgerðir í síðustu viku. France 24 greinir frá.
Almenningssamgöngur hafa verið í lamasessi en einungis tvær leiðir innan neðanjarðarlestarkerfis Parísar eru í gangi. Eiga þær það sameiginlegt að í lestir leiðanna þarf ekki lestarstjóra.
Breytingum stjórnvalda á eftirlaunakerfi landsins er ætlað að fá fólk til að hætta að vinna síðar á lífsleiðinni, ellegar fá minni ellilífeyri í sinn hlut.
Verkfallsaðgerðir hófust síðastliðinn fimmtudag en forsætisráðherra Frakklands, Edouard Philippe, hefur ítrekað að áformaðar breytingar verði ekki dregnar til baka.
Formaður verkalýðsfélagsins CGT, Philippe Martinez, segir í viðtali við dagblaðið Le Journar du Dimanche, að aðgerðum muni ekki linna fyrr en fallið verður frá áformum.
Verkalýðsfélög lestarstarfsmanna kölluðu eftir því að verkfallsaðgerðir verði auknar í vikunni.
Macron boðar til fundar vegna verkfallsaðgerða

Tengdar fréttir

Formaður VR segir spennuþrungið andrúmsloft í Frakklandi
Verkfallsaðgerðir vegna áforma frönsku ríkisstjórnarinnar um breytingar á eftirlaunakerfi landsins héldu áfram í dag. Formaður VR er staddur í París og segir mikla spennu í loftinu.

Milljónir leggja niður störf í Frakklandi
Einar víðtækustu verkfallsaðgerðir í áraraðir eru nú að hefjast í Frakklandi.

Gulvestungar mótmæltu í París í dag
Mótmælt var í Frakklandi í dag og voru mótmælendur í gulum vestum áberandi. Spenna hefur verið í landinu síðustu daga vegna ætlunar Emmanuels Macron, Frakklandsforseta og yfirvalda þar í landi, að breyta lífeyrislögum.