Skoðun

Vertu fyrir­mynd

Signý Gunnarsdóttir skrifar
Hvað getur þú sem foreldri gert til að auka orðaforða og bæta lesskilning barnsins þíns. Já, ábyrgðin er okkar foreldra, ekki bara skólakerfisins.

1. Lestu fyrir barnið þitt (það er enginn of gamall til að láta lesa fyrir sig, ekki heldur 12 ára börn) eða hlustaðu á hljóðbók með barninu þínu. Spurðu út í söguna og spurðu út í smáatriðin og veltu upp ýmiss konar hugleiðingum. „Af hverju heldurðu að honum líði illa?“ „Hvernig var peysan á litinn?“ „Hvað hefði gerst ef þau hefðu ekki farið út í skóg?“ o.s.frv. 10-15 mínútur á dag gætu skipt meginmáli. Hvettu barnið þitt til að stoppa þig og spyrja út í orð sem það ekki skilur. Hvort sem þú ert að lesa fyrir barnið eða að tala við það.

2. Komdu upp reglubundnum spilastundum, t.d. einu sinni í viku. Mörg spil krefjast samskipta sem geta hjálpað barninu, fyrir utan þá staðreynd að í spilastundum felast gæðastundir.

3. Sýndu áhugamálum barnsins þíns áhuga. Spurðu um uppáhalds fótboltakonuna eða eftirlætis tónlistarmanninn. Spurðu út í tölvuleikinn. Fáðu barnið til að segja þér frá Youtube-myndbandinu sem það er að horfa á. Ekki gera þetta einu sinni, gerðu þetta á hverjum degi.

4. Og síðast en ekki síst. Vertu fyrirmynd. Leggðu frá þér símann, slökktu á sjónvarpinu og taktu upp bók.

Höfundur er talmeinafræðingur.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×