Norskir fjölmiðlar greindu frá því í gærkvöldi að vegfarendur hafi komið að barnavagni við ströndina við Fagereng og að fótspor í snjónum hefðu leitt niður að sjó. Þar hafi stigvél fundist.
Björgunarlið fann svo fólkið í sjónum þar sem ekkert þeirra var með lífsmarki. Endurlífgun var þá reynd, en greint var frá því í gærkvöldi að ein stúlknanna hafi þá verið úrskurðuð látin. Í morgun var svo tilkynnt að móðirin hafi einnig látið lífið.
Móðirin og stúlkurnar eru allar erlendir ríkisborgarar að því er fram kemur í frétt NRK.

Umfangsmikil björgunaraðgerð fór fram eftir að fólkið fannst þar sem notast var við kafara og þyrlur til að leita af sér grun um hvort að fleira fólk væri í sjónum.
Lögreglustjórinn í Tromsø, Anita Hermandsen, segir of snemmt að segja til um hvort að um slys hafi verið að ræða eða hvort að eitthvað saknæmt hafi átt sér stað.