Innlent

Framtíð fjölmiðlafrumvarpsins veltur á Sjálfstæðisflokknum

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra.
Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra. Vísir/vilhelm
Það veltur á þingflokki Sjálfstæðisflokksins hvort fjölmiðlafrumvarp Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, nái fram að ganga fyrir jól eða hvort hætt verður við löggjöfina að svo stöddu. Þetta herma heimildir fréttastofu en málið er til umfjöllunar á þingflokksfundi Sjálfstæðisflokksins sem nú stendur yfir. 

Á laugardaginn var síðasti dagur til að leggja fram mál á Alþingi fyrir jólafrí svo málið geti komið á dagskrá fyrir jól. Ef afgreiða á fjölmiðlafrumvarpið fyrir jól þyrfti þannig að setja það á dagskrá með afbrigðum. Í samtali við fréttastofu Rúv staðfesti Lilja að hún ætli sér að ná því í gegn fyrir jólafrí en samkvæmt starfsáætlun þingsins líkur haustþingi þann 13. desember.

Fjölmiðlafrumvarpið var samþykkt í ríkisstjórn í síðustu viku, nokkuð breytt frá því sem kynnt var fyrr á árinu. Samkvæmt gögnum sem fréttastofa hefur undir höndum er í nýju frumvarpi sem afgreitt var úr ríkisstjórn meðal annars gert ráð fyrir að styrkir til einkarekinna fjölmiðla í formi endurgreiðslu af ákveðnum hluta rekstrarkostnaðar verði 20% en ekki 25% líkt og gert var ráð fyrir í fyrstu.

Ljóst er þó samkvæmt heimildum fréttastofu að meiri breytingar þarf til að Sjálfstæðisflokkurinn geti fallist á að hleypa málinu í gegn. Takist ekki að ná sátt um málið fyrir jól komi til greina að taka málið alfarið af dagskrá en gert var ráð fyrir að lögin tækju gildi um áramót.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×