Chandler Smith var ekki með Snæfelli á móti Skallagrími í gær og missti líka af leiknum á undan vegna veikinda.
Snæfell tilkynnti síðan í gær að Snæfell og Chandler Smith hafi náð samkomulagi um að sú síðarnefnda spili ekki meira með liðinu á tímabilinu. Þjálfarar Snæfellsliðsins eru í leit að nýjum leikmanni sem kemur í fyrsta leik á nýju ári.
Chandler Smith var með 14,5 stig og 5,0 stoðsendingar að meðaltali í leik í átta deildarleikjum með Snæfelli í vetur. Hún lækkaði hins vegar úr 16,2 stigum og 5,8 stoðsendingum í leik í október niður í 11,7 stig og 3,7 stoðsendingar að meðaltali í leik í nóvember þar sem hún hitti aðeins úr 17 prósent þriggja stiga skota sinna.
Snæfellsliði hefur aðeins unnið tvo af tíu deildarleikjum sínum og þarf hreinlega á munu meira framlagi frá bandarískum leikmanni sínum en því sem Chandler Smith var að skila.
Hin bandaríska Keira Breeanne Robinson fór sem dæmi á kostum gegn kanalausu Snæfellsliði í gær og var með 35 stig, 11 fráköst, 8 stolna bolta og 7 stoðsendingar í 76-65 sigri Skallagríms á Snæfelli.
Snæfell verður því einnig án bandarísks leikmanns í síðustu þremur leikjum sínum fyrir jól en næsti leikur er á móti Grindavík á miðvikudagskvöldið.
Grindavík er einmitt eitt af þremur liðum Domino´s deildar kvenna sem hefur skipt um bandarískan leikmann á þessu tímabili en hin eru Haukar og Breiðablik. Snæfell bætist síðan í hópinn þegar nýr bandarískur leikmaður kemur í janúar.