Íslenska CrossFit sjarnan Sara Sigmundsdóttir var hraustust allra kvenna á Dubai CrossFit Championship sem lauk um helgina en Sara fékk 26 stigum meira en næsta kona.
Sara hækkaði sig um tvö sæti frá því í fyrra þegar hún endaði í þriðja sætið. Sigurinn var líka hennar þriðji á mjög stuttum tíma eftir að hafa unnið CrossFit mót í Dublin á Írlandi á leið sinni til Sameinuðu arabísku furstadæmanna auk þess sem hún var „The Open“ annað árið í röð.
Sigurinn í Dúbaí gaf Söru ekki aðeins enn einn farseðilinn á heimsleikana í ágúst eða enn meiri virðingu í CrossFit heiminum því okkar kona hafði einnig dágóða upphæð upp úr krafsinu.
Sigurvegarinn í einstaklingskeppninni á Dubai CrossFit Championship fékk nefnilega 50 þúsund dollara í sinn hlut eða meira en 6,1 milljón íslenskra króna.
Það voru hins vegar ekki einu peningarnir sem Sara vann sér inn á mótinu. Það voru líka peningaverðlaun fyrir hverja grein. Fyrstu þrír í hverri grein fengu þrjú þúsund dollara (1. sæti), tvö þúsund dollara (2. sæti) og eitt þúsund dollara (1. sæti). Auk þess var upphæð sigurvegarans hækkuð í tveimur greinum og Sara vann aðra þeirra.
Sara var meðal þriggja efstu í sjö greinum af ellefu. Hún vann tvær greinar (8 þúsund dollarar), lenti í öðru sæti í þremur greinum (6 þúsund dollarar) og varð í þriðja sæti í einni gein (1 þúsund dollarar). Þessi frammistaða gaf Söru því 15 þúsund dollara í viðbót.
Sara fer því heim með 65 þúsund dollara eftir þetta mót í Dúbaí eða með meira en átta milljónir íslenskra króna. Hér fyrir neðan má sjá lista mótshaldara yfir verðlaunaféð á mótinu.