Lunginn af þeim sem hafa verið við leit að pilti sem féll í Núpá í Sölvadal í gærkvöldi er nú kominn í hvíld að sögn Jóhannesar Stefánssonar, aðstoðaryfirlögregluþjóns hjá lögreglunni á Norðurlandi eystra.
Á morgun verði sett mikið afl í leitina og treyst á að hægt að verða að nota þyrlu Landhelgisgæslunnar og dróna við að leita.
„Það eru menn á vettvangi en ekki vinna ofan í ánni. Það eru bæði lögreglumenn og björgunarsveitarmenn á staðnum en lunginn af viðbragðinu er í hvíld núna. Á morgun verður sett mikið afl í leitina og núna er í þessum töluðu orðum verið að skipuleggja þá vinnu og leitarsvæði og setja menn í hlutverk og stöður,“ segir Jóhannes í samtali við Vísi.
Hann segir að veðurspáin fyrir morgundaginn líti þokkalega út en afar erfiðar aðstæður hafa verið á vettvangi síðasta sólarhringinn; ofankoma, skafrenningur og kuldi auk þess sem nú er dimmasti tími ársins.
Jóhannes segir að á morgun eigi að vera bjartara yfir en hefur verið undanfarna daga. Þó sé vitað að verði mjög kalt.
„En okkur sýnist að það sé bjart yfir og erum að treysta á að geta notað bæði þyrlur og dróna við þessa leit á morgun.“
