Innlent

Erfiðara að hægja sér í miðborginni á nýju ári

Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar
Eitt salernanna stendur við Hallgrímskirkju.
Eitt salernanna stendur við Hallgrímskirkju. ehermannsson

Öll sjálfvirk almenningssalerni í miðbæ Reykjavíkur verða fjarlægð 1. janúar. Samkvæmt upplýsingum frá Reykjavíkurborg er ennþá verið að vinna í útboðsgögnum vegna reksturs þeirra og endanlega tímasetning á útboð ekki komin. Þá tekur sjálft útboðsferlið um sex vikur.

Samkvæmt upplýsingum borgarinnar rann samnningur út við Ehermannsson þann 30. júní. Fyrirtækið hefur séð um rekstur salernanna í miðbænum síðustu 20 ár samkvæmt upplýsingum þaðan.

Reykjavíkurborg hefur þrisvar framlengt samning við fyrirtækið en ákvað að bjóða þjónustuna út í haust. Upplýsingadeild ráðhússins gefur þau svör að athugasemdir hafi verið gerðar við útboðsgögnin í október meðal annars vegna staðsetningar salernanna, og því hafi úboðinu verið frestað.

Ennþá sé verið að vinna í útboðsgögnunum og ekki sé komin endanleg tímasetning á hvenær því ljúki. Samningur við Ehermannsson hafi kostað 40 milljónir og samkvæmt innkaupareglum borgarinnar þurfi að bjóða verkefnið út. Sjálft útboðið tekur svo um sex vikur. Samkvæmt þessu geta því mánuðir liðið þar til almenningssalernin, sem eru sex talsins verða opnuð aftur.  

Í tilkynningu frá Ehermannssyni kemur fram að um hundrað þúsund manns noti salernin árlega. Því muni þjónusta við borgarbúa og ferðamenn skerðast verulega. Viðbúið sé að ferðamenn leiti í staðinn inn á veitingastaði, verslanir og önnur þjónustufyrirtæki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×