Lág verð í útboðum endurspegla hungur á verktakamarkaðnum, að mati Vegagerðarinnar. Samgönguráðherra segir þau hvatningu til að bjóða út enn fleiri verk. Þetta kom fram í fréttum Stöðvar 2.
Ætla mætti að á tímum sérstaks framkvæmdaátaks væri tilhneiging í þá átt að verkkostnaður færi hækkandi. Sú hefur ekki orðið raunin í útboðum Vegagerðarinnar á undanförnum vikum. Þannig var lægsta tilboð í gær í breikkun Vesturlandsvegar í Mosfellsbæ 30% undir kostnaðaráætlun.
![](https://www.visir.is/i/046EA84F1A5C326F9E46E62912E1C45EBC281C8BA251BF194A7031EB6DBC4404_713x0.jpg)
Hjá Vegagerðinni segjast menn sjá töluvert lægri verð í útboðum í vor en undanfarin ár.
„Lág verð endurspegla klárlega hungur á verktakamarkaði, sérstaklega í jarðvinnuframkvæmdum,“ segir Óskar Örn Jónsson, forstöðumaður framkvæmdadeildar Vegagerðarinnar.
„Þetta kemur náttúrulega ekki á óvart. Þetta segir auðvitað þá sögu sem við þekkjum að það er slaki í hagkerfinu. Staðreyndin er sú að það eru 55 þúsund manns annaðhvort atvinnulausir eða í hlutastarfi um þessar mundir,“ segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins.
![](https://www.visir.is/i/3CD3D665B8D06A48DAC7F87FD93818835849C4F5207B20BD1C275FC2040B49EF_713x0.jpg)
Samgönguráðherra segir jákvætt að sjá fjölda útboða og að verkin fari undir kostnaðaráætlun.
„Það er vísbending um að það sé enn slaki í kerfinu. En það er þá líka kannski hvatning til okkar að bjóða þá frekar meira út.
Af því að þegar þetta er í hina áttina, að það er yfir kostnaðaráætlun, þá er það að lokum fjármagnið sem takmarkar okkur í að geta boðið fleiri verkefni. En núna gæti það verið hvati til að bjóða þá út enn fleiri,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra.
![](https://www.visir.is/i/ED2DD64E2F3F1323B15C69952A3759E2F2D49503A03A650A1FE2AFD3EF0DA0F7_713x0.jpg)
Sparnaðurinn í þessu eina útboði í Mosfellsbæ gær er upp á 215 milljónir króna en þar var kostnaðaráætlun 706 milljónir króna en lægsta boð 490 milljónir króna. Þeir fjármunir sem sparast gætu þá nýst í önnur verk.
„Það er auðvitað mjög ánægjulegt fyrir ríkissjóð, sem er að fjárfesta núna í uppbyggingu iðnviða, að njóta þess þá í góðum kjörum og er vonandi hvatning til ríkisins að gera þá meira en minna á þessu ári, - bæta helst í,“ segir framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: