Enn er óvíst hvort, og þá hvenær, Meistaradeild Evrópu og Evrópudeildin verða kláraðar en forráðamenn félaganna sem þar keppa virðast þó hafa einhverjar vísbendingar um það.
Í það minnsta fullyrðir Jean-Michel Aulas, forseti franska úrvalsdeildarliðsins Lyon, að lið hans muni leika síðari leikinn í 16-liða úrslitunum gegn Juventus þann 7.ágúst næstkomandi. Lyon vann fyrri leikinn í Frakklandi 1-0.
„Leikurinn gegn Juventus hefur verið settur þann 7.ágúst. Það er frágengið. Við munum spila fyrir luktum dyrum í Torínó,“ sagði Aulas í útvarpsviðtali í dag.
Aulas hefur látið mikið að sér kveða í fjölmiðlum að undanförnu þar sem hann er ósáttur með ákvörðun forsvarsmanna Ligue 1, frönsku úrvalsdeildarinnar, en ákveðið hefur verið að deildarkeppnin þar í landi verði ekki kláruð.
Hann segir klárt mál að PSG og Lyon muni lenda í miklum vandræðum í Meistaradeildinni í kjölfarið þar sem andstæðingar þeirra munu verða í mun betra leikformi.