Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, ákvað að fjarlægja sig öðru fólki að eigin vali í dag eftir að aðstoðarmaður hans greindist smitaður af nýju afbrigði kórónuveiru. Þrír af æðstu embættismönnum sóttvarna eru í sóttkví vegna smits innan Hvíta hússins.
AP-fréttastofan segir að ítrekuð próf sem Pence hefur gengist undir frá því að hann var í návígi við smitaðan einstakling hafi verið neikvæð. Hann fylgi hins vegar leiðbeiningum Sóttvarnastofnunar Bandaríkjanna (CDC) um að fjarlægja sig öðru fólki tímabundið.
Talsmaður Pence segir engu að síður að Pence sé ekki í sóttkví og að hann hyggist mæta til starfa í Hvíta húsinu á morgun.
Blaðafulltrúi Pence, Katie Miller, greindist með kórónuveiruna á föstudag og var hún þá annar starfsmaður Hvíta hússins sem greindist smitaður á einni viku. Persónulegur aðstoðarmaður Trump greindist smitaður á fimmtudag. Miller er eiginkona Stephens Miller, eins helsta ráðgjafa Trump forseta.
Anthony Fauci, yfirmaður Ofnæmis- og smitsjúkdómastofnunar Bandaríkjanna, Robert Redfield, forstjóri CDC, og Stephen Hahn, forstjóri Matvæla- og lyfjastofnunar Bandaríkjanna, eru allir í sóttkví vegna þess að þeir voru nærri starfsmanni Hvíta hússins sem greindist smitaður.