Sjö sjúklingar á öldrunarspítalanum Landakoti hafa greinst með kórónuveiruna auk tíu starfsmanna. Þetta sagði Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, á upplýsingafundi vegna kórónuveirunnar í dag.
Smitrakning hefur farið fram en ekki virðist sem að starfsmenn hafi smitast af sjúklingum að sögn Páls. Væntanlega sé um smit úr samfélaginu að ræða eða á milli starfsfólks.
Landspítalinn lokaði fyrir frekari innlagnir á Landakot þegar að smit greindust fyrst hjá starfsmönnum og sjúkling í mars. Um mánaðamótin var svo aftur opnað fyrir innlagnir á aðrar deildir en þar sem smit voru.
Landakot er öldrunarspítali þar sem starfræktar eru legudeildir, dagdeildir og endurhæfing.
Alls eru nú 110 starfsmenn Landspítala í sóttkví og 25 í einangrun vegna veirunnar. Páll sagði ekki vera nein merki um það að starfsmenn á Landspítalanum hafi smitast af sjúklingum.
Upptöku og textalýsingu frá upplýsingafundinum í dag má nálgast hér.
Fréttin hefur verið uppfærð.