Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, varði annarri nótt á gjörgæsludeild St. Thomas sjúkrahússins í Lundúnum, en hann var lagður þar inn í fyrradag vegna Covid-19-veikinda.
Samkvæmt upplýsingum frá skrifstofu forsætisráðuneytisins er Johnson undir nánu eftirliti lækna. Var haft eftir talsmanni Johnson í gærkvöldi að ástand forsætisráðherrans væri stöðugt og lundin létt.
Fram kom í gær að Johnson hefði ekki verið settur í öndunarvél en hefði þegið súrefni á sjúkrahúsinu.
Dominic Raab, utanríkisráðherra Bretlands, sagðist í gær vera sannfærður um að Johnson myndi jafna sig á veikindunum og lýsti forsætisráðherranum sem „baráttumanni“.
Raab hefur tekið við hluta af skyldum forsætisráðherra í fjarveru Johnson.