Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, var í dag útskrifaður af sjúkrahúsi eftir að hafa legið fárveikur á gjörgæslu vegna Covid-19. Forsætisráðuneytið tilkynnti í dag að hann muni ekki snúa aftur til vinnu strax en hann er enn að jafna sig eftir veikindin.
Johnson birti þakkarmyndband á Twitter þar sem hann þakkaði heilbrigðisstarfsfólki Bretlands fyrir að hafa bjargað lífi sínu. „Ég get ekki þakkað þeim nægilega fyrir. Ég á þeim líf mitt að launa,“ sagði hann og þakkaði hann sérstaklega tveimur hjúkrunarfræðingum sem sinntu honum.
Sjá einnig: Þakkar heilbrigðisstarfsfólki fyrir að hafa bjargað lífi sínu
„Þegar uppi var staðið fékk líkami minn nægilegt súrefni vegna þess að þær stóðu vaktina alla nóttina og hugsuðu um mig og gripu inn í þegar þess þurfti,“ sagði Johnson.
Dominic Raab, utanríkisráðherra Bretlands, mun sinna störfum forsætisráðherra á meðan Johnson einbeitir sér að því að ná fullum bata, að ósk Johnson.
Þegar þetta er skrifað hafa 79.885 verið greindir með kórónuveiruna í Bretlandi. Bretland er enn ekki komið yfir versta hjalla faraldursins eins og mörg önnur Evrópuríki sem hafa orðið illa úti í faraldrinum. Nú hafa 10.612 látist af völdum sjúkdómsins í Bretlandi.
It is hard to find the words to express my debt to the NHS for saving my life.
— Boris Johnson #StayHomeSaveLives (@BorisJohnson) April 12, 2020
The efforts of millions of people across this country to stay home are worth it. Together we will overcome this challenge, as we have overcome so many challenges in the past. #StayHomeSaveLives pic.twitter.com/HK7Ch8BMB5