Slökkvistarfi lauk í Norðurárdal í Borgarfirði á sjötta tímanum í morgun en á svæðinu hafði umfangsmikill gróðureldur logað síðan í gær. Heiðar Örn Jónsson varaslökkvliðsstjóri í Borgarbyggð segir að vel hafi farið að ganga í baráttunni við eldinn þegar leið á nóttina.
„Það var núna um fimmleytið í nótt eða sex, þá hættum við störfum. Þetta gekk þokkalega, þegar leið á nóttina. Akurnesingarnir fóru frá okkur um fjögurleytið og síðustu menn voru að skríða inn á stöð hjá okkur um sex í morgun. Aðgerðum lokið.“
Hvað með tjón, er þetta stórt svæði?
„Þetta er töluvert stórt svæði. Tjónið er bara á gróðri, það voru engar byggingar eða neitt svoleiðis sem varð fyrir þessu.“

Tæplega hundrað manns komu að aðgerðunum þegar mest var.
„Fjórar stöðvar frá Borgarbyggð. Svo er slökkvilið Akraness og Reykjaness sem hjálpaði okkur við þetta og á heildina með björgunarsveitum voru þetta á að giska um hundrað manns,“ segir Heiðar Örn.
Í spilaranum hér að neðan má sjá aðstæður í Borgarfirði í gærkvöldi.