Skoðun

Heldur þann versta en þann næst­besta

Vilhjálmur H. Vilhjálmsson skrifar

Við flutning á máli Jóns Höskuldssonar gegn íslenska ríkinu í Landsrétti á fimmtudaginn í síðustu viku var settur ríkislögmaður spurður að því hvort að fyrrverandi dómsmálaráðherra hefði verið frjálst að skipa hvern sem er af þeim umsækjendum sem ekki voru á lista hæfnisnefndar yfir 15 hæfustu umsækjendurna sem dómara við Landsrétt vorið 2017. Með öðrum orðum var íslenska ríkið spurt að því hvort að fyrrverandi dómsmálaráðherra hefði verið heimilt að skipa hvern sem er af umsækjendum nr. 16-33 á lista hæfnisnefndar í stað einhvers af þeim 15 hæfustu sem hæfnisnefndin lagði til að yrðu skipaðir.

Íslenska ríkið svaraði því játandi að því gefnu að Alþingi hefði samþykkt skipunina. Svarið er hárrétt með hliðsjón af dómi Hæstaréttar í Landsréttarmálinu. Þar komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að ítrekuð lögbrot fyrrverandi dómsmálaráðherra og Alþingis í skipunarferlinu breyttu engu vegna þess Forseti Íslands hefði með undirritun sinni á skipunarbréf dómarans staðfest ótímabundna skipun hans í embætti dómara við Landsrétt.

Eins og íslenska ríkið staðfesti með málflutningsyfirlýsingu sinni í Landsrétti í síðustu viku leiðir niðurstaða Hæstaréttar í Landsréttarmálinu til þess að dómsmálaráðherra er frjálst að skipa hvaða umsækjanda sem er óháð tillögu hæfnisnefndar sem embættisdómara við íslenska dómstóla (héraðsdóm, Landsrétt og Hæstarétt) svo lengi sem viðkomandi umækjandi uppfyllir almenn hæfisskilyrði og Alþingi samþykkir skipunina. Það samþykki ætti ekki að vera vandkvæðum bundið eins og dæmin sanna.

Afleiðingin er sú að skipun dómara á Íslandi er á nýjan leik orðin geðþóttaákvörðun þess einstaklings sem gegnir embætti dómsmálaráðherra hverju sinni. Það er í beinni andstöðu við gildandi lög og reglur sem er ætlað að takmarka vald dómsmálaráðherra og búa svo um hnútana að skipun dómara sé reist á málefnalegum grunni.

Niðurstaða Hæstaréttar í Landsréttarmálinu felur því í sér beina aðför að sjálfstæði íslenskra dómstóla. Þess vegna var nauðsynlegt að skjóta Landsréttarmálinu til mannréttindadómstóls Evrópu. Málið hefur verið dómtekið í Grand Chamber og bíður dóms.

Höfundur er hæstaréttarlögmaður og flutti mál nr. 10/2018 í Hæstarétti.




Skoðun

Sjá meira


×