Atletico Madrid vann ótrúlegan 3-2 sigur á Liverpool á Anfield í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í gær. Aldrei hafa fleiri mörk verið skoruð í framlengingu í Meistaradeild Evrópu. Alls voru þau fjögur talsins.
Að loknum venjulegum leiktíma var staðan 1-0 fyrir Liverpool og því þurfti að framlengja. Eftir að liðin höfðu leikið tvo leiki eða rétt yfir 180 mínútur og skorað aðeins tvö mörk þá komu fjögur á þeim 30 mínútum sem framlengingin var.
Liverpool v Atletico Madrid was the first ever Champions League game to see four goals scored in extra time pic.twitter.com/YLJhSzmoif
— Goal (@goal) March 12, 2020
Atletico hefur áður tekið þátt í framlengingu þar sem skoruð voru þrjú mörk. Því miður fyrir þá voru það erkifjendur þeirra í Real Madrid sem skoruðu öll þrjú mörkin.
Var það í úrslitaleik Meistaradeildarinnar árið 2014 en þá hafði Sergio Ramos jafnaði metin í 1-1 á 93. mínútu leiksins og því þurfti að grípa til framlengingar. Í henni skoruðu þeir Gareth Bale, Marcelo og Cristiano Ronaldo fyrir Real sem vann leikinn 4-1.
Það virtist sem að Atletico hefði aftur dregið styttra stráið en strax á 4. mínútu framlengingar kom Roberto Firmino Liverpool í 2-0. Var þetta hans fyrsta mark á Anfield í 20 leikjum en Firmino skoraði síðast gegn Porto í apríl 2019.
Alls fór hann 337 daga án þess að skora á heimavelli.
Eftir markið var komið að þætti Marcos Llorente sem hafði komið inn af varamannabekk gestanna á 56. mínútu leiksins. Þremur mínútum eftir mark Firmino átti Adrián, markvörður Liverpool, skelfilega hreinsun frá marki sem endaði með því að Llorente skoraði og staðan orðin 2-1 sem þýddi að Atletico var á leiðinni áfram þökk sé fleiri mörkum skoruðum á útivelli.
Það var svo nokkrum sekúndum áður en fyrri hálfleik framlengingar lauk sem Llorente skoraði aftur, nú með hnitmiðuðu skoti í fjærhornið. Óverjandi fyrir Adrián í markinu.
Alvaro Morata, annar varamaður, gulltryggði sigur Atletico með marki á 120. mínútu leiksins. Lokatölur 3-2 gestunum í vil og alls komu fjögur af fimm mörkum leiksins í framlengingu.