Franski miðjumaðurinn Paul Pogba verður leikmaður Manchester United á næstu leiktíð ef marka má orð Ole Gunnar Solskjær, þjálfara liðsins, eftir 5-0 sigur Man Utd á austurríska liðinu LASK í 16-liða úrslitum Evrópudeildarinnar.
Nafn Pogba hefur verið mikið í umræðunni það sem af er leiktíð, líkt og það alltaf er. Frakkinn hefur hins vegar verið að glíma við meiðsli nær allt tímabilið.
Eftir að hafa spilað meiddur gegn Rochdale í enska deildarbikarnum og Arsenal í ensku úrvalsdeildinni þá þurfti Pogba að gangast undir aðgerð á ökkla og því hefur hann ekki leikið með liðinu það sem af er ári.
Talið er að hann sé við það að snúa aftur til æfinga en nú er spurning hvenær hann gæti spilað sinn fyrsta leik þar sem talið er að ensku úrvaldeildinni verði frestað líkt og öðrum deildum Evrópu sökum COVID-19 veirunnar.
Mino Raiola, umboðsmaður Pogba, hefur verið duglegur að láta gamminn geysa í fjölmiðlum. Gagnrýnt bæði félagið og Ole Gunnar Solskjær. Sá hefur þó reynt að grafa stríðsöxina á undanförnum vikum sem þykir benda til þess að Pogba vilji vera áfram á Old Trafford.
Í kjölfar 5-0 sigurs Man United á LASK í Evrópudeildinni í gær var Ole Gunnar spurður út í framtíð Pogba.
„Paul er leikmaður okkar. Hann á tvö ár eftir á samning ásamt möguleikanum á öðru eftir það. Já þið getið reiknað með því að Paul verði hérna á næstu leiktíð,“ sagði sá norski.
"Paul's our player. He has two years left on his contract, a year plus the option of another."
— Sky Sports (@SkySports) March 13, 2020
Paul Pogba will remain at #MUFC next season
Það verður því áhugavert að sjá hvernig Pogba kemur inn í liðið en miðja liðsins hefur litið einkar vel út síðan Bruno Fernandes gekk í raðir Manchester United frá Sporting Lisbon í janúar á þessu ári.