Starfsdagur verður í öllum leik- og grunnskólum sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu næstkomandi mánudag, 16. mars, til þess að stjórnendur og starfsmenn geti skipulagt skólastarf með tilliti til þeirrar takmörkunar á skólahaldi sem yfirvöld kynntu í dag til að hefta útbreiðslu kórónuveirunnar hér á landi.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá stjórn Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu en þar segir að sveitarfélögin vinni nú að skipulagningu skólastarfs miðað við takmörkun skólahalds næstu fjórar vikurnar en það er sá tími sem samkomubann verður í gildi.
„Foreldrar leik- og grunnskólabarna eru beðnir um fylgjast vel með upplýsingum sem birtast munu um helgina og á mánudaginn m.a. á heimasíðum sveitarfélaganna og heimasíðum grunn- og leikskóla. Þá eru í undirbúningi sameiginlegar leiðbeiningar sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um frístundaheimili, íþróttastarf, íþróttamannvirki, skólahljómsveitir, og aðrar tómstundir barna,“ segir í tilkynningu frá sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu.