Starfsmönnum fyrirtækisins Virgin Orbit, sem er í eigu auðjöfursins Richard Branson, mistókst í gærkvöldi að skjóta eldflaug út í geim. Eldflauginni var sleppt frá farþegaþotunni Cosmic Girl, sem búið var að breyta til að flytja eldflaugina LauncherOne upp í háloftin yfir Kyrrahafinu. Skömmu seinna kviknaði á hreyfli eldflaugarinnar en villa kom upp og þurfti að hætta við tilraunaskotið.
Þetta var í fyrsta sinn sem reynt er að kveikja á hreyfli eldflaugar Virgin Orbit í loftinu og heppnaðist það fullkomlega. Fyrirtækið hafði gefið út að einungis helmingslíkur væru á því að öll tilraunin heppnaðist.
Nákvæmlega hvaða villa kom upp svo hætta þurfti við tilraunaskotið liggur ekki fyrir. Dan Hart, framkvæmdastjóri Virgin Orbit, segir verkfræðinga fyrirtækisins vera að fara yfir öll þau gögn sem tilraunin hafi veitt þeim og að næsta eldflaugin sé tilbúin til næstu tilraunar.
„Við munum læra, aðlagast og byrja undirbúning fyrir næstu tilraun okkar, sem verður á næstunni,“ er haft eftir Hart í yfirlýsingu á vef Virgin Orbit.
CEO Dan Hart on today's mission: “Our team performed their pre-launch & flight operations with incredible skill today. Test flights are instrumented to yield data and we now have a treasure trove of that... we took a big step forward today." Read more ↓ https://t.co/XxZV72aPDT
— Virgin Orbit (@Virgin_Orbit) May 25, 2020
Markmið fyrirtækisins er að þróa ódýra leið til að koma smáum gervihnöttum á braut um jörðu. Eins og áður segir er næsta eldflaug tilbúin og eru sex aðrar langt komnar í framleiðsluferli.