Innlent

Sundköppum vísað frá affallinu stórhættulega

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Þetta skilti er við a»ffall Reykjanesvirkjunar.
Þetta skilti er við a»ffall Reykjanesvirkjunar. Vísir/Einar

Lögreglan á Suðurnesjum fylgdi í gærkvöldi fjórum sundköppum frá útfallinu við Reykjanesvirkjun þar sem þeir voru að baða sig. Stórhættulegt getur verið að baða sig í útfallinu, líkt og komið hefur fram í fréttum.

Í tilkynningu frá lögreglunni segir að lögreglumenn á vegum hennar hafi verið kvaddir að útfallinu þar sem sundkapparnir fjórir voru að baða sig. Var þeim tilkynnt að bannað væri að lauga sig í útfallinu. Var þeim svo fylgt út af svæðinu.

Fyrr í mánuðinum varaði HS Orka, umsjónaraðili Reykjanesvirkjunar, við því að að lífshættulegt gæti verið að baða sig í affallinu frá virkjuninni, eftir að hafa fengið upplýsingar um að böð í affallinu væru skyndilega orðin vinsæl.

Svæðið er lokað af góðri ástæðu en affallið streymir úr Reykjanesvirkjun út í sjó. Alla jafna er það 35 gráðu heitt.

„Hins vegar ef það verður einhver truflun á rekstri þá fyrirvaralaust getur vökvinn farið í 100 gráður og það er engar viðvaranir á því,“ sagði Kristín Vala Matthíasdóttir, framkvæmdastjóri framleiðslu HS Orku, í samtali við fréttastofu fyrr í mánuðinum.

Skammt frá er svo ægimáttur Atlantshafsins auk þess sem að við affall virkjunarinnar bætist affall frá eldisstöð Norska fiskeldisfyrirtækisins Stolt Sea Farm. Þeir sem baða sig í virkjunarvatninu baða sig því einnig í affalli frá eldisstöðinni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×