Erlent

Norð­menn heimila eggja­gjafir og tækni­frjóvganir ein­stæðra kvenna

Atli Ísleifsson skrifar
Norska þinghúsið í Osló.
Norska þinghúsið í Osló.

Breytingar á lögum um eggjagjafir, tæknifrjóvganir og fósturskimanir voru samþykktar á norska þinginu í gær. Stjórnarandstæðingar á þingi tóku þar höndum saman og í atkvæðagreiðslunni varð minnihlutastjórn Ernu Solberg forsætisráðherra undir.

Með breytingunum verður einstæðum konum nú heimilt að gangast undir tæknifrjóvganir, eggjagjöf verður lögleg, barnshafandi konum verður staðið til boða að fara í sónar snemma á meðgöngu og NIPT-litningarannsóknir verða heimilaðar.

Mikil óvissa var um hvernig atkvæðagreiðslan færi en þingmenn stjórnarandstöðuflokkanna Verkamannaflokksins, Framfaraflokksins, Sósíalíska vinstriflokksins, Rauða flokksins og Græningja greiddu atkvæði með frumvarpinu. Sömu sögu er að segja um einstaka þingmenn í ríkisstjórnarflokkunum Venstre og Hægriflokki Ernu Solberg forsætisráðherra.

Alls greiddu áttatíu þingmenn atkvæði gegn tillögunni um að einstæðum konum yrði heimilt að gangast undir tæknifrjóvganir, en 89 með. Varðandi lögleiðingu egggjagjafa greiddu 94 þingmenn atkvæði með að heimila slíkar gjafir en 75 gegn.

Ræddi um stöðuna á Íslandi

Kjell Ingolf Ropstad, formaður stjórnarflokksins Kristilega þjóðarflokksins, lýsti yfir vonbrigðum sínum sem breytingarnar eftir að niðurstaðan lá fyrir. Sagðist hann óánægður með að verið væri að opna á að sum börn geti ekki vitað um líffræðilegan uppruna sinn og að til stæði að fjármagna úr opinberum sjóðum fósturprófanir þar sem leitað væri eftir vísbendingum um Downsheilkenni. 

„Í Danmörku og á Íslandi, þar sem búið er að innleiða slíkar reglur, koma vart nokkur börn með Downsheilkenni í heiminn lengur,“ sagði Ropstad í samtali við VG.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×