Alþjóðasamtök flugumferðarstjóra, IFACTA, hafa sent Ásgeiri Pálssyni, framkvæmdastjóra ISAVIA ANS, dótturfélags ISAVIA, bréf þar sem uppsögnum fyrirtækisins á um það bil hundrað flugumferðarstjórum síðastliðin mánaðamót er mótmælt. Samtökin krefjast þess að uppsagnirnar verði dregnar til baka.
Í bréfinu segir að uppsagnirnar séu til þess fallnar að valda alvarlegri röskun á þjónustu sem hingað til hefur verið veitt. Eins hafi þær niðurdrepandi áhrif á starfsanda flugumferðarstjóranna sem þær ná til.
„Flugumferðarstjórar eru ekki varningur sem hægt er að geyma uppi í hillu í lengri tíma, til þess að „reka og ráða“ að nýju án alvarlegrar hættu á gæðatapi þjónustu og óhjákvæmilega dregur þetta úr öryggi. Án flugumferðarstjóra yrði ekki flogið til eða frá Íslandi, yfir Norður-Atlantshaf, né til Evrópu, þegar aftur verður hægt að fljúga.“
Þá er starfsstéttin sögð veigamikill þáttur í innviðum ríkja heimsins. Hún leiki lykilhlutverk í mikilvægum flutningi lyfja og heilbrigðisvara til þess að kveða niður kórónuveirufaraldurinn.
„Því er gríðarlega mikilvægt að ríki styrki innviði flugumferðarstjórnar í gegn um þessa krísu og á meðan bara er náð, rétt eins og þau styðja aðra hluta flugiðnaðarins.“