Innlent

Farþegar með grímur þegar Icelandair flýgur á ný

Kjartan Kjartansson skrifar
Ferðalagið verður ekki með sama sniði og áður þegar Icelandair hefur daglegt áætlunarflug 15. júní. Farþegar og áhöfn þurfa að vera með grímur og engin matarþjónusta verður um borð.
Ferðalagið verður ekki með sama sniði og áður þegar Icelandair hefur daglegt áætlunarflug 15. júní. Farþegar og áhöfn þurfa að vera með grímur og engin matarþjónusta verður um borð. Vísir/Vilhelm

Bæði áhöfn og farþegar um borð í flugvélum Icelandair þurfa að vera með andlitsgrímur þegar félagið hefur daglegt áætlunarflug til lykiláfangastað í næstu viku. Farþegar sem finna fyrir einkennum sem líkjast flensu verða hvattir til að fresta ferðalagi sínu.

Ferðatakmörkunum sem hafa verið í gildi vegna kórónuveirufaraldursins verður aflétt mánudaginn 15. júní. Þá verður farþegum sem koma til landsins boðið að gangast undir skimun eða skila inn vottorði frá heimalandinu í stað þess að fara í fjórtán daga sóttkví.

Icelandair gerir ráð fyrir því að hefja daglegt áætlunarflug til lykiláfangastaða strax á mánudag. Í tilkynningu frá félaginu er greint frá útfærslu á sóttvörnum um borð í vélunum. Áhöfn og allir farþegar, fyrir utan börn undir tólf ára aldri, þurfa að vera með andlitsgrímur um borð til viðbótar við aðrar smitvarnir eins og handþvott og notkun handspritts.

Farþegar eru hvattir til að koma með sínar eigin grímur en grímur verða einnig tiltækar um borð í vélunum. Mælt er með því að fleiri en ein gríma verði höfð meðferðis fyrir ferðalagið. Andlitsgríman má vera hvort sem er heimagerð eða keypt, en hún verður að hylja nef og munn. Taka má grímur niður til að neyta matar og drykkja um borð í vélinni. Farþegar sem finna fyrir flensulíkum einkennum hvattir til að fresta ferðalagi sínu.

Þjónusta um borð í vélunum verður takmörkuð af öryggisástæðum. Þannig verður engin matarþjónusta um borð fyrst um sinn en farþegar fá vatnsflöskur þegar þeir ganga um borð. Til stendur að endurmeta þjónustustigið þegar á líður.

Áfram verður lögð áhersla á aukin þrif um borð í vélunum. Allir snertifletir verða þrifnir sérstaklega fyrir hvert flug og salerni sótthreinsuð á milli ferða. Þá verður fylgst sérstaklega með loftgæðum um borð í vélunum á meðan á flugi stendur.

Frekari upplýsingar um sóttvarnir um borð í Icelandair-vélum frá og með 15. júní má finna hér.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×