„Þetta er íslensk grínmynd um sextán, sautján ára stelpu sem langar að verða uppistandari,“ segir leikkonan Sonja Valdin í Brennslunni í morgun en hún fer með aðalhlutverkið í nýrri íslenskri grínmynd sem ber nafnið Mentor. Vísir frumsýndi í gær fyrstu stikluna úr kvikmyndinni.
„Ég er 24 ára en púlla alveg að vera sautján ára og er alltaf spurð um skilríki í ríkinu.“
Sonja vakti fyrst athygli á Snapchat með Áttunni og varð fljótlega landsfræg á þeim vettvangi.
Hún var tekin í yfirheyrsluna í Brennslunni í morgun og þá varð hún að svara spurningum án þess að hugsa mikið.
Þar kom meðal annars í ljós að uppáhaldsmaturinn hennar er pasta, Eyrarbakki er að hennar mati fallegasti staður á landinu, hún þolir ekki andfýlu og leiðinlegasti samfélagsmiðillinn er Snapchat að hennar mati.
Hér að neðan má hlusta á viðtalið í heild sinni en þar kom margt annað fram í yfirheyrslunni.