Emmanuel Macron Frakklandsforseti kynnti í gærkvöldi tilslakanir vegna kórónuveirufaraldursins sem hann segir þær mestu í Evrópu en í dag mega kaffihús og veitingastaðir í París opna auk þess sem ferðalög til annarra Evrópulanda verða leyfð.
Frakkar höfðu áður opnað veitingahús í öðrum héröðum landsins en ekki í París, þar sem kórónuveiran var einna útbreiddust. Þá verður fólki einnig leyft að heimsækja ættingja á öldrunarheimilum en þar hefur veiran verið sérstaklega skæð.
Í dag ætla Þjóðverjar, Belgar, Svisslendingar og Króatar einnig að opna landamæri sín að fullu fyrir gestum frá öðrum Evrópusambandslöndum og gilda þá engar reglur um sóttkví eða skimanir við komu til landanna. Frakkar hafa þó þann háttinn á að Bretar og Spánverjar sem hyggjast heimsækja landið þurfa að undirgangast tveggja vikna sóttkví.
Macron tilkynnti jafnframt að sveitarstjórnarkosningar í Frakklandi muni fara fram þann 28. júní næstkomandi en fresta þurfti kosningunum í mars þegar átti að halda þær vegna faraldursins. Þó munu ýmsar takmarkanir vera á kjörstöðum til að tryggja að smithætta verði sem minnst.